133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[13:54]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir flest það sem hér hefur verið sagt og verð að viðurkenna að mér finnst ekki rétt af æðsta forseta þingsins að koma fram með slík ummæli eins og hér var farið yfir áðan sem í raun er erfitt að túlka öðruvísi en sem hótun, nema það sé samkvæmt þingsköpum að forseti geti í raun og veru ráðið því hvort ræðutíminn verður styttur eða ekki. Það væri fróðlegt að fá að vita það, frú forseti, hvort það sé í raun og veru vald sem forsetinn hefur. Ekki veit ég það en varðandi ræðutíma ítreka ég enn og aftur að það hefur enginn gert neitt samkomulag við mig varðandi ræðutíma, það hefur enginn samið um það við mig að ég tali lengi eða stutt.

Ég reifaði í gær í nokkuð langri ræðu réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins og benti m.a. á það hvernig er verið að skerða réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins með þessu frumvarpi, með því að kippa hreinlega úr sambandi ákveðnum lögum, lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ég benti á þetta sem ég tel vera galla í frumvarpinu en það má vel vera að þetta sé vísvitandi gert og þá er það hreinlega spurning hvort ekki sé betra fyrir framkvæmdarvaldið að krukka þá í lögin beint heldur en að koma svona aftan að fólki með því að kippa þessu úr sambandi í frumvarpinu.

En varðandi störf þingsins þá er ég eins og fleiri, frú forseti, farinn að sakna þess að hér skuli ekki vera komin á dagskrá utandagskrárumræða um Byrgið sem ég tel afskaplega þýðingarmikið og jafnframt bendi ég á þau mál sem hér bíða, þar má m.a. nefna stjórnarfrumvörp um almenn hegningarlög, um kynferðisafbrot sem við höfum beðið lengi eftir að fá að ræða, einnig þingsályktunartillögur um afnám verðtryggingar lána sem hafa verið nokkuð hátt í umræðunni undanfarið og ég vildi gjarnan að færi að koma á dagskrá. Hér bíður mál um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, málefni aldraðra, málefni heyrnar- og talmeinastöðvarinnar, um almannatryggingar og málefni aldraðra o.s.frv. Hér bíða fjölmörg góð mál en því er haldið fram að gert hafi verið samkomulag um að ekkert komist á dagskrá fyrr en búið er að ræða RÚV-frumvarpið út. Ég ítreka enn og aftur, slíkt samkomulag var aldrei gert við mig. Ég veit ekki um hvað menn eru að tala. Ég mundi gjarnan vilja fá það helst á prenti, hvað fór fram á þessum fundi, hvar fór hann fram, hverjir voru þar og voru allir þar allsgáðir?