133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[13:58]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega orðið afar sérstakt þegar einn ráðherra, þótt hæstv. menntamálaráðherra sé, getur ráðið því jafnvel út þessa viku eða lengur hvernig staðið verður að verki í hv. Alþingi. Það er líka sérstætt að hæstv. forseti þingsins skuli samþykkja það vinnulag að þannig sé að málum staðið að öllu sé rutt til hliðar.

Ég kannast ekki við það, hæstv. forseti, að samkomulag sem gert var fyrir jól hafi náð til þess að ýta burtu umræðum utan dagskrár eða fyrirspurnum sem hér eru venjulega á dagskrá einu sinni í viku. Ég hélt að samkomulagið hefði náð til þess að það yrðu kannski ekki önnur frumvörp eða þingsályktunartillögur teknar á dagskrá meðan þetta mál væri til umræðu. Ég vil spyrja hæstv. forseta sem situr á stóli núna hvort hæstv. forseti viti til þess, svo við fáum um það upplýsingar, hvort hér eigi að taka kvöldumræðu í kvöld eða jafnvel fram á nóttina þriðja daginn í röð. Ég held að það hafi ekki verið venja í þingsölum að þannig væri staðið að verki. Niðurstaða mín af þessu vinnulagi er einfaldlega sú að ráðherrann ræður þessari för og hann fær að komast upp með það með vilja og samþykki forseta þingsins. Fyrirspurnum er rutt til hliðar og utandagskrárumræðum er rutt til hliðar. Það tel ég að hafi ekki falist í því samkomulagi sem gert var um málsmeðferð í þinginu fyrir jól.

Það er líka rétt að vekja athygli á því, hæstv. forseti, að að því er ég þekki best til hefur ríkisstjórnin fengið að keyra fram með nánast öll sín mál á undanförnum árum en stjórnarandstaðan hefur fyrir náð og miskunn fengið að koma fram einu eða tveimur málum og jafnvel látið að því liggja í þinglok hvaða mál ætti hugsanlega að taka út úr nefnd til að það fengi að rúlla í gegn og þá valið eitthvað sem stjórnarliðum fannst ekki skipta miklu máli.