133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[14:05]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér fundarstjórn hæstv. forseta. Hæstv. forseti nefndi áðan 57. gr. þingskapa Alþingis en sú grein fjallar einmitt um takmörkun ræðutíma. Þessi umræða er í framhaldi af viðtali sem mér skilst að 1. forseti þingsins hafi veitt fréttamanni á Stöð 2 í hádegisfréttunum í dag. Ég missti því miður af hádegisfréttunum, hér var þingfundur til klukkan eitt og mér gafst ekki tækifæri til að sjá þessar fréttir en mun auðvitað skoða síðar mjög vel þetta viðtal við hæstv. forseta.

Mér skilst á ræðumönnum hér á undan að hæstv. forseti hafi talað um að jafnvel kæmi til greina að takmarka ræðutíma þingmanna en ég mun kanna það. Ég mundi mjög gjarnan vilja fá að vita, frú forseti, hvort þessari 57. gr. hafi oft verið beitt hér í þinginu á síðustu árum, eða hefur henni einhvern tíma verið beitt, frú forseti? Nú spyr ég bara sem óbreyttur varaþingmaður. Ég þekki ekki störf þingsins síðustu árin, hvað þá áratugina, það vel að ég eigi svör við svona og spyr því mér þingreyndara fólk. Sú sem nú situr á forsetastóli er einmitt búin að vera hér lengi góður og dyggur þingmaður og getur vonandi upplýst mig um hvernig þessari grein, sem mér þykir nokkuð merkileg og hún er auðvitað mjög róttæk, 57. gr. um takmörkun umræðna, hafi verið beitt.

Það væri mjög sorglegt, frú forseti, ef grípa þyrfti til þessarar greinar og það er í raun og veru líka mjög sorglegt að það þurfi þá að hóta því að þessari grein verði beitt, frú forseti.