133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[14:15]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það má taka undir margt sem sagt hefur verið í þessari umræðu. Ég held að þeir sem setið hafa hér um skeið geti vottað það og viðurkennt að þinginu hefur þó fleygt fram, a.m.k. frá því sem var fyrir áratug eða svo. Aðstaðan í þinginu hefur batnað til mikilla muna og möguleikar þingmanna á því að setja sig vel inn í mál. Það hefur margt verið fært til betri vegar. Þetta skiptir máli og það er mikilvægt að hafa þetta í huga. Þess vegna, og einkanlega í ljósi þeirrar þróunar sem hér hefur verið um nokkurra ára skeið, koma ummæli hæstv. forseta mjög á óvart, að mótmæli stjórnarandstaðan af krafti máli sem hún hefur sannfæringu fyrir að sé vont og vill berjast gegn, sé lausnin sú að takmarka málfrelsi þingmanna, að það sé lausnin þegar stjórnarandstaðan reynir að koma, leyfi ég mér að segja, vitinu fyrir ríkisstjórnina í þessu máli.

Þetta er mælt af vörum hæstv. forseta Alþingis, forseta allra þingmanna. Í þessum orðum felst það í raun og veru að leyfi þingmenn sér þann munað að berjast gegn viðhorfum ríkisstjórnarinnar sem hér fer nánast alfarið með ferðina, þá skuli bregðast við á þennan hátt. Það lýsir ekki mikilli virðingu fyrir störfum þingsins að gera þetta á þennan hátt.

Ég held að sú umræða sem hér hefur farið fram eigi eftir að halda áfram. Ég held að það sé afar mikilvægt að við eigum þessa umræðu við forseta þingsins, að hún verði viðstödd þessa umræðu þannig að við getum skipst hér á skoðunum. Það er mjög athyglisvert að ekki einn einasti stjórnarþingmaður hefur enn tekið til máls (Gripið fram í.) til að fjalla um þá umræðu sem hér hefur farið fram. Vel má vera að það takist að særa einhvern upp í þessa umræðu en enn hefur enginn stjórnarþingmaður fundið sig knúinn til að koma upp í ræðustól og ræða ummæli forseta þingsins sem höfð voru eftir henni á Stöð 2 núna í hádeginu.