133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[14:17]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hlustaði ekki á hádegisfréttirnar og ætla því ekki að tjá mig beint um þær. Hins vegar vildi ég kveðja mér til hljóðs til að ræða örstutt um það sem menn hafa verið að ræða hér varðandi þingsköpin.

Við vitum að við erum með þau þingsköp sem gilda núna og auðvitað starfar fólk eftir þeim. Það er enginn að tala um að skerða ræðutíma þingmanna í þessari umræðu. En af því sem mér hefur skilist tilkynnti hæstv. forseti það þegar hún tók við sem forseti þingsins að hún mundi beita sér fyrir endurskoðun á þingsköpum. Ég tel það vera hið besta mál. Það eru mörg atriði sem við þurfum að skoða þar. Það er mikilvægt fyrir okkur að það verði engar breytingar gerðar nema í sátt við alla. Það er það sem skiptir máli. Þó svo að einhverjir lýsi yfir skoðunum á því hvað þeim fyndist vera æskilegt, þá er það engin niðurstaða. Ég vona að það sé skilningur allra hv. þingmanna að þingsköpum verði ekki breytt nema í sátt við alla.

Margir hafa rætt um að það sé kannski tilefni til þess, virðulegi forseti, að stytta ræðutíma þingmanna. Ég ætla ekkert að úttala mig um það. Ég held að það séu mörg önnur atriði sem við ættum ekki síður að horfa á varðandi þingsköpin. Fulltrúar allra flokka hafa nýtt sér ótakmarkaðan ræðutíma til að koma skoðunum sínum á framfæri. Það er þeirra tæki.

Ég vildi líka vísa því á bug hér, virðulegi forseti, að nefndir séu ekki að breyta og vinna í málum. Þetta er algjör fjarstæða. Við vitum það sem sitjum hér í atkvæðagreiðslum um margar breytingartillögur að nefndir eru að vinna mjög fagmannlega að málum og gera margar breytingartillögur. Ég vísa því þess vegna til föðurhúsanna að nefndir á hinu háa Alþingi vinni ekki að því að breyta málum til betri vegar þegar ástæða er til. Við höfum t.d. dæmi hér í frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið þar sem fjölmargar breytingar hafa verið gerðar á því frumvarpi.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma upp og greina frá því að það er auðvitað svo að breytingar á þingsköpum verða ekki gerðar nema í sátt við alla. Sumir hafa kannski þá skoðun að stytta mætti ræðutíma þingmanna en að svo stöddu þá störfum við samkvæmt þeim þingsköpum sem eru í gildi og þau kveða á um ótakmarkaðan ræðutíma.