133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:46]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi hefur Samfylkingin ekki breytt sinni stefnu í sjávarútvegsmálum. Í öðru lagi er það rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað laga stundum flokkar stefnu sína að breyttum viðhorfum. Það var ekkert óeðlilegt við það þó að Framsóknarflokkurinn breytti í takt við breytingar í tíðarandanum stefnu sinni gagnvart einstökum þáttum stjórnmálanna, hugsanlega útvarpsrekstri líka. Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir af hverju Framsóknarflokkurinn eða forusta hans, ritari hans, hefur breytt stefnunni í þessum efnum. Það er vegna þess að Framsóknarflokkurinn er kúgaður af Sjálfstæðisflokknum til þess að gera það. Forusta Framsóknarflokksins lætur knýja sig niður á hnén og tekur hverju sem er þrátt fyrir að fyrir liggi að fylgi flokksins, það sem eftir er af því, grasrótin í flokknum, er allt annarrar skoðunar. Það hafa komið fram bæði borgarfulltrúar, ungir leiðtogar og varaþingmenn á síðustu vikum og missirum og staðfest þetta.

Ég spyr enn og aftur. Af hverju taka þingmenn Framsóknarflokksins að sér þetta hlutverk? Það meira að segja fer þeim illa.