133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:47]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Stefna Framsóknarflokksins er unnin í breiðum hópi grasrótarinnar. Í þessum rúmlega 10.500 manna flokki — þetta er fjöldahreyfing í raun og veru — er hún unnin í aðdraganda flokksþinga með þeim hætti — og mér þykir rétt að upplýsa hv. þm. Össur Skarphéðinsson um það — að öllum flokksmönnum gefst þáttur í að taka þátt í málefnastarfi sem fer fram á netinu og á fundum um allt land. Svo koma menn með þær ályktanir sem þar hafa verið samdar og fara með inn á flokksþingið. Við handskrifum ekki handritið fyrir fram heldur kemur grasrótin og stjórnar því.

Af því hann vitnar til grasrótarinnar og framsóknarmanna um allt land þá hefur sú sem hér stendur farið á um 20 fundi nú á þessu haustmissiri um allt land og hitt þar framsóknarmenn, okkar trúnaðarmenn alls staðar, og haldið opna fundi. Ég get bara upplýst það að hvergi var minnst á RÚV-frumvarpið. Þetta er ekki mál sem er heitt í okkar röðum … (ÖS: Það er nú ekki rétt.) … þetta er mál sem er (Forseti hringir.) ekki heitt í okkar röðum (Gripið fram í.) vegna þess að við höfum fullan stuðning til þess að fylgja þessu eftir.