133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:52]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ungir framsóknarmenn, Samband ungra framsóknarmanna er svo sannarlega hluti af grasrót flokksins. Þessi ályktun þeirra hefur verið gerð ljós og við tekið hana til greina. En hún kemur fram löngu eftir að þetta mál er hér komið fram.

Eins og ég lýsti áðan þá er það nú þannig að á þessum 20 fundum sem ég hef farið á í haust og hitt hundruð framsóknarmanna hefur þetta mál ekki verið það heita mál sem menn vilja hafa hér.

Varðandi áframhaldandi réttindi starfsmanna þá er það nú þannig að hv. þingmaður fylgdi um tíma stjórnmálaflokki sem hefur á stefnu sinni að RÚV verði að sjálfseignarstofnun. Þá eiga nú við þessi sömu sjónarmið og hann lýsti í ræðu sinni. (Gripið fram í.)

Það er auðvitað þannig að við getum ekkert bundið hendur starfsmanna fram í tímann. (MÁ: ... samið við starfsmenn.) Með sama hætti mun félagið nýja, Ríkisútvarpið ohf., auðvitað semja við starfsmenn. (Gripið fram í.) Já, jú, jú stjórn nýs félags mundi leggja sig fram um að semja við starfsmenn. (Forseti hringir.) Það er fullur vilji allra sem að málinu koma að það verði haldið þannig á (Forseti hringir.) starfsmannamálunum að kjör starfsmanna við þessar breytingar (Gripið fram í.) verði ekki skert og það verður staðið við það. (Gripið fram í.)