133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:56]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég gerði það bara vegna þess að ég sá áðan þegar ég kom hingað að búið var að taka tíu sekúndur af ræðutíma mínum. Það er hátt hlutfall af ræðutímanum. Sem betur fer er núna stillt á eina mínútu.

(Forseti (RG): Ræðutíminn er leiðréttur. Starfsmaður reynir eftir fremsta megni að hafa tímann réttan fyrir þingmenn.)

Takk fyrir, frú forseti.

Hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir hefur sennilega ekki lesið Fréttablaðið á mánudaginn síðasta. Þar er einmitt ítarlegt viðtal við Ástráð Haraldsson, hæstaréttarlögmann. Ég leyfi mér að vitna beint í ummæli hans.

„Um leið og starfsemi er færð í form hlutafélags verður hún einkaréttareðlis og það er mikilvægt að menn átti sig á að frumvarpið fjallar því í reynd um einkavæðingu Ríkisútvarpsins, ...“

Í lengra máli fjallar Ástráður Haraldsson síðan um það að þessi breyting ohf. eða hf. er ekki grundvallarbreyting. Þetta er nefnilega fyrsta skrefið í einkavæðingu Ríkisútvarpsins og það er þvert á stefnu Framsóknarflokksins. Það er grafalvarlegur hlutur að þingmenn Framsóknarflokksins ætla að stíga það skref með Sjálfstæðisflokknum að þessu sinni.