133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:57]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Forseti. Mér er vel kunnug tilvist þessarar greinar enda, eins og hv. þingmaðurinn veit, var efni hennar fylgiskjal — það vill svo heppilega til — með minnihlutaáliti menntamálanefndar. Þar af leiðandi kom manni ekki á óvart að hún skyldi birtast þennan dag í Fréttablaðinu.

Eins og ég nefndi hér áðan þá er tilgangur okkar með því að standa að þessum breytingum klárlega sá að við teljum að Ríkisútvarpið þurfi að geta vaxið og dafnað með öðrum aðferðum í gerbreyttu fjölmiðlaumhverfi. Við og Vinstri grænir, Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir erum sammála um heilmargt varðandi RÚV, hvert hlutverk þess eigi að vera í þjónustu við alla landsmenn og að það eigi að sinna almannaþjónustuhlutverki sem er víðtækara heldur en til að mynda Samfylkingin hefur haldið í tölum sínum innan menntamálanefndar.

En varðandi rekstrarformið þá erum við hreinlega (Forseti hringir.) ekki sammála. Um það er bara pólitísk mismunandi afstaða.