133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[19:15]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson segir hér skýrt og skorinort að samkeppnislögin gildi um hluta af starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. en engu að síður er hann ekki tilbúinn að fara þær leiðir sem Samkeppniseftirlitið vill benda á. Samkeppniseftirlitið bendir á tvær leiðir, frumvarpið gerir ráð fyrir hvorugri leiðinni. Þess vegna liggur það í augum uppi, hv. þingmaður, að þetta frumvarp fer í bága við samkeppnislög.

Eins og ég benti á í máli mínu er 3. gr. frumvarpsins með afskaplega víðtækt gildissvið. Þar er beinlínis gert ráð fyrir að hluti af almannaþjónustuhlutverki ríkisfjölmiðilsins sé m.a. framleiðsla og kaup á afþreyingarefni. Ég benti á fordæmi því til stuðnings að hér getur verið talsverð hætta á að fjármunir sem fáist í verndaðan hluta þessarar starfsemi fari yfir í hinn svokallaða samkeppnisrekstur. Tilfærslan þarf ekki að hafa átt sér stað heldur hættan. Þetta frumvarp hefur augljóslega í för með sér hættu á því að fjármunir fari þar á milli. Þar af leiðandi fer þetta frumvarp í bága við samkeppnislög.

Varðandi seinni spurninguna um sérlögin þá fór ég hér yfir þrjú fordæmi, síðasta frá árinu 2006 og það elsta frá 1995, sem öll gera ráð fyrir því að séu ekki sérreglur í viðkomandi sérlögum sem undanþiggja tiltekna háttsemi frá samkeppnislögum þá eiga samkeppnisreglur við. Hér hafði ég uppi beinar tilvitnanir í þessa úrskurði sem gera þetta afskaplega skýrt í mínum huga.