133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[19:17]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég mun kannski fara nánar yfir þetta í ræðu minni á eftir vegna þess að ég er næstur á mælendaskrá. En það er ótrúlegt að hlusta á hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson halda því fram að það sé einhver vafi á því að sérlög gangi framar almennum lögum og að í þessu tilviki muni lögin um Ríkisútvarpið ohf. ekki ganga framar samkeppnislögum. Hv. þingmaður, sem er lögfræðingur, reyndi að halda þessu fram og hann er líklega fyrsti maðurinn í þessari umræðu til að halda þessum sjónarmiðum fram og ég fullyrði að þau standast ekki skoðun. Ég veit að hv. þingmaður trúir mér ekki þrátt fyrir að ég sé lögfræðingur vegna þess að ég er pólitískur andstæðingur hans.

Þá skulum við vitna til þess sem æðsti maður samkeppnismála, sem líka er lögfræðingur, hefur sagt um einmitt þetta álitaefni. Í Fréttablaðinu þann 5. desember 2006 birtist frétt og viðtal við Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Í þeirri frétt segir, með leyfi forseta:

„Páll Gunnar segir sérlög eins og þau sem lögð eru til með frumvarpinu um hlutafélagavæðingu RÚV ganga framar samkeppnislögum.“

Ég held að ég lesi þetta aftur, frú forseti:

„Páll Gunnar segir sérlög eins og þau sem lögð eru til með frumvarpinu um hlutafélagavæðingu RÚV ganga framar samkeppnislögum.“

Hvað segir hv. þingmaður um þessi ummæli í ljósi þess sem hann hefur sagt hér? Ég hygg að hann sé eini maðurinn sem hefur komist að þessari niðurstöðu og ég fullyrði að hún er röng hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni og ég trúi ekki að hann standi við hana.