133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[19:19]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Aðrir hafa bent á svipaða niðurstöðu, ég bendi á hæstaréttarlögmanninn Ástráð Haraldsson hvað það varðar að það þurfi pósitíft ákvæði ef menn ætla að undanskilja eitthvað frá samkeppnislögum. En ég þarf ekkert að benda á það. Ég get bent á samkeppnisyfirvöldin sjálf. Það stendur í einum nýjasta úrskurði samkeppnisyfirvalda í áfrýjunarnefndinni — þetta lýtur að máli Osta- og smörsölunnar — að þegar sérákvæðum af þessu tagi sleppir o.s.frv. þá gilda samkeppnislög.

Í öðrum úrskurði áfrýjunarnefndar um eggjaframleiðendurna segir að hvorki búvörulögin sjálf né aðrar réttarheimildir sem settar eru með stoð í þeim hafi að geyma sérreglur sem fjalli beint og óbeint um heimild til að skipta eggjamarkaðnum og þess vegna beri að beita almennum ákvæðum samkeppnislaga.

Þriðja fordæmið lýtur nú að Ríkisútvarpinu sjálfu. Þar segir, með leyfi forseta, í úrskurði 21/1995:

„Verður því að telja að útvarps- og sjónvarpsrekstur falli undir lögin, enda er hann ekki sérstaklega undan þeim skilinn.“

Hvernig er hægt að skilja það, hæstv. forseti, að hér sé ekki krafa um pósitíft ákvæði, um að undanskilja eigi tiltekna háttsemi, frá samkeppnislögunum ef það markmið á að nást? Hér eru skýr dæmi um niðurstöður samkeppnisyfirvalda frá 1995 til 2006 um að pósitíft ákvæði sé skilyrði.

Að lokum langar mig að minna hv. formann menntamálanefndar enn og aftur á það þar sem hann var að vísa í Samkeppniseftirlitið að þetta sama Samkeppniseftirlit hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að í þessu frumvarpi felist samkeppnisleg mismunun. Sem sagt að það sé brot á samkeppnislögum. Samkeppniseftirlitið bendir á tvær leiðir sem stjórnarliðar vilja hvoruga fara. Þess vegna er frumvarpið eins og það er í stakk búið núna brot á samkeppnislögum. Ég þarf ekkert annað en að vísa í umsögn Samkeppniseftirlitsins hvað það varðar.