133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[19:59]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Herra forseti. Eins og ég gat um í stuttri ræðu minni rétt fyrir hlé hefur ítrekað verið óskað eftir því af hálfu stjórnarandstöðunnar, helst af hálfu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að ég taki til máls á ný um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf.

Umræða um málið hófst á mánudaginn. Þá gerði ég grein fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hlutans eftir að málið hafði verið tekið til umfjöllunar í menntamálanefnd milli 2. og 3. umr. En ýmsir háttvirtir þingmenn töldu að ekki væru komin fram svör við ýmsum áleitnum spurningum sem þeir hefðu varpað fram í umræðunni. Ég ákvað því að verða við því að halda stutta ræðu, m.a. um þau atriði sem spurt hefur verið um. Annars er þetta ekki í fyrsta skiptið sem við ræðum málefni Ríkisútvarpsins. Eins og hv. þm. Mörður Árnason hefur nefnt ræðum við um málefni Ríkisútvarpsins og frumvarp til laga um Ríkisútvarpið í sjöunda skiptið á hinu háa Alþingi. Umræðan hefur markast af því. Mér hefur gefist kostur á að fylgjast með öllum þeim ræðum sem haldnar hafa verið í þessari lotu og ég verð að segja að flestar þeirra hef ég heyrt áður. Þau sjónarmið sem fram hafa komið eru ekki ný af nálinni heldur hefur þeim verið teflt fram áður.

Ég ætla ekki að fara yfir allt sem rætt hefur verið um fram að þessu í umræðunni. Menn hafa farið um víðan völl varðandi málefni Ríkisútvarpsins. Það er kannski athyglisverðast við umræðuna, eins og málin hafa þróast, um hvað ekki hefur verið rætt. Hvað hefur ekki komið til umræðu á hinu háa Alþingi í tengslum við málið, sérstaklega í tengslum við þau gögn sem gerð hafa verið að umfjöllunarefni, þ.e. hin svokölluðu ESA-gögn. Þegar meiri hluti menntamálanefndar afgreiddi málið til 3. umr. kom fram gagnrýni á það frá minni hlutanum að bréf fjármálaráðuneytisins og Eftirlitsstofnunar EFTA hefðu ekki verið lögð fram. Það var gagnrýnt en auðvitað voru bréfin lögð fram. Ég hef gert ítarlega grein fyrir því með hvaða hætti það var gert og til hvaða aðgerða ég greip sem formaður nefndarinnar til að nefndarmenn fengju tækifæri til að kynna sér þau áður en fulltrúar fjármálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis voru fengnir á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir efni gagnanna.

Það sem er athyglisvert er að nú er um vika síðan gögnin voru lögð fram og maður skyldi ætla að hv. þingmenn hefðu haft tækifæri til að kynna sér efni þeirra. En í umræðunni, sem hefur tekið þrjá heila daga, hefur stjórnarandstaðan talað um þessi gögn en ekkert fjallað um innihald þeirra. Ekki neitt. (MÁ: Það er rangt …) Það er reyndar rétt að það er örlítið að þeim vikið í framhaldsnefndaráliti minni hlutans en umræðan um innihald gagnanna hefur svo að segja ekki verið nein og ekki í samræmi við upphlaupið og lætin í tengslum við þau. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmenn hafi fengið tækifæri til að kynna sér þessi gögn núna og sjái ástæðu til þess, einnig hv. þm. Einar Már Sigurðsson, að fara yfir gögnin, innihald þeirra og upplýsa okkur um það sem ég hef áður sagt í tengslum við málið. Í þessum gögnum er ekkert sem máli skiptir hvað frumvarpið varðar. (Gripið fram í: Nú, ekkert.)

Ýmsum spurningum hefur verið varpað til mín og þingmenn hafa óskað eftir því að ég gerði grein fyrir afstöðu minni. Sumir, t.d. hv. þm. Össur Skarphéðinsson, vilja að ég fræði þá um ýmsa þætti málsins. Auðvitað er mér bæði ljúft og skylt að gera það og raunar nokkur ánægja. Samt sem áður hefur margt í þessari umræðu verið sagt sem ég tel ekki svaravert. En spurningarnar lúta kannski fyrst og fremst að þremur þáttum. Í fyrsta lagi meintum pólitískum afskiptum af stjórn Ríkisútvarpsins samkvæmt frumvarpinu. Í öðru lagi hefur verið vikið að hlutverki ríkisendurskoðanda í tengslum við frumvarpið. Einnig hafa menn velt því fyrir sér hvernig samkeppnislöggjöfin, innlend og erlend, harmónerar við efni frumvarpsins.

Áður en ég svara þeim spurningum sem ég veit að stjórnarandstæðingar bíða spenntir eftir svörum við vil ég fara í nokkru máli yfir stefnu stjórnarandstöðuflokkanna í málinu, einkum Samfylkingarinnar og þá einkum varaformanns flokksins, hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar. Eins og menn kannski muna óskaði ég eftir því að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar léti sjá sig í þingsalnum og tæki þátt í umræðunni. Því miður er hann ekki staddur í salnum. En ég geri ráð fyrir að hann fylgist af athygli með ræðu minni. Hann hefur látið lítið fyrir sér fara þrátt fyrir að hafa verið iðinn við að viðra sjónarmið sín til málsins í fjölmiðlum.

Hv. þingmaður hélt reyndar síðustu ræðu og reyndi að bera hönd fyrir höfuð sér en að mínu mati tókst honum það heldur óhönduglega. Hann hélt að mínu mati afar snautlega ræðu um málið. Hann reyndi að koma á framfæri nýjum kenningum á sviði lögfræði sem mér fundust ótrúlegar og magnað að hv. þingmaður, sem er lögfræðingur, skuli ekki bera meiri virðingu fyrir sjálfum sér og þeirri fræðigrein sem hann hefur lært ef miðað er við ræðuna. Slíkar voru kenningarnar og svo nýstárlegar að maður hefur aldrei heyrt annað eins. Hann var sem sagt barinn til hlýðni eftir að ég óskaði eftir því að hann kæmi, tæki þátt í umræðunni og viðraði sjónarmið sín. Hann var augljóslega rekinn til þátttöku í þessum umræðum.

Ég geri ráð fyrir að sá hv. þingmaður sem gengur í salinn, Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hafi barið varaformann flokksins til hlýðni og rekið hann í þessar umræður. (Gripið fram í.) Herra forseti. Ég upplýsti áðan að ég ætlaði að fara yfir stefnu Samfylkingarinnar í málinu. Þingmenn stjórnarandstöðunnar, úr Samfylkingunni, hafa komið hingað upp, haldið nokkrar ræður og gert grein fyrir stefnu flokksins í málefnum Ríkisútvarpsins. Það gerði flokkurinn líka þann 7. desember 2006 þegar haldinn var blaðamannafundur og kynnt og auglýst stefna flokksins: Sjálfstætt, öflugt almannaútvarp var yfirskrift þeirrar stefnu. Nokkuð ítarleg og kynnt með miklum bravúr. Þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

,,Samfylkingin leggur til að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun með eigin stjórn sem Alþingi kýs. Að auki eigi starfsmenn Ríkisútvarpsins fulltrúa í stjórn og þannig sé tryggt að ekki myndist ríkisstjórnarmeirihluti í stjórninni.“

Þetta er kynnt sem stefna Samfylkingarinnar, án allra fyrirvara. Engir fyrirvarar eru gerðir varðandi stuðning lykilmanna í flokknum til málsins. (MÁ: Þetta er sáttarstefna.) Þetta er sáttarstefna. Nú ber hins vegar svo við að það ríkir ekki sátt um þá stefnu Samfylkingarinnar að gera eigi Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun, hvorki innan þings né innan Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) vegna þess, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að Samfylkingin er engan veginn einhuga um þá stefnu. Það veit hv. þm. Mörður Árnason. (Gripið fram í: Það er bara Sjálfstæðisflokkurinn.) Það er ekki eins og það sé einhver jaðarmaður í flokknum á móti stefnu flokksforustunnar, einhver áhugasamur flokkshestur sem sækir málfundi sem flokkurinn stendur fyrir. Nei. Það er varaformaður Samfylkingarinnar, hægri hönd formannsins, hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson. Ein helsta skrautfjöður þingflokksins sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson stýrir.

Þann 11. nóvember síðastliðinn … — Ég vek athygli hæstv. forseta á því að ég get varla talað, ég heyri varla í sjálfum mér fyrir frammíköllum (Gripið fram í.) frá þingmönnum Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) sem eru orðnir svo órólegir og reiðir …

(Forseti (BÁ): Forseti hvetur hv. þingmenn til þess að gefa hv. ræðumanni tækifæri til þess að flytja mál sitt.)

Það er ótrúlegt (Gripið fram í.) að þurfa að halda ræður við þessar aðstæður. (Gripið fram í.) Ekki bara að þeir sitji hér dreyrrauðir og skammist sín fyrir varaformann sinn heldur geta þeir ekki leyft ræðumanni, sem er með orðið, að halda ræðu sína og gera grein fyrir stefnu Samfylkingarinnar í málinu. (EMS: Ertu að tala um þinn varaformann?) Ef ég fæ að koma því að. Ég var að rifja upp að Samfylkingin var ekki einhuga um þá stefnu sem kynnt var með lúðrablæstri og söng á blaðamannafundi þann 7. desember 2006 síðastliðinn vegna þess að ein helsta skrautfjöður Samfylkingarinnar, sjálfur varaformaðurinn, Ágúst Ólafur Ágústsson, gerðist liðhlaupi úr þingflokknum.

Þann 11. nóvember síðastliðinn fór fram prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík. Daginn fyrir það prófkjör birtist viðtal í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni: Ósamstiga í mikilvægum málum. Þá var átt við frambjóðendur Samfylkingarinnar í prófkjörinu. Blaðamaðurinn, Magnús Halldórsson, sem skrifaði fréttaskýringuna sendi þingmönnum og frambjóðendum Samfylkingarinnar í Reykjavík spurningalista með 10 spurningum. Níunda spurningin á þeim spurningalista hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Á að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag?“ Þetta er einföld spurning og skýr. Allir frambjóðendur: hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason Össur Skarphéðinsson, Ásta R. Jóhannesdóttir og frambjóðendurnir Valgerður Bjarnadóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir svara þessari spurningu neitandi. En hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson og varaformaður Samfylkingarinnar svarar heiðarlega og frá hjartanu spurningunni um hvort breyta eigi Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag þannig — og þá sé ég að hv. þm. Mörður Árnason hleypur út úr salnum: ,,Já, ef ritstjórnarlegt sjálfstæði helst óskert og aðgangur kjörinna fulltrúa að upplýsingum verður fyrir hendi.“

Nú sakna ég óneitanlega hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar í þingsalinn. Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra getur tekið undir það með mér að þetta er sannarlega stuðningur við frumvarpið úr óvæntri átt. Við segjum, ég og hæstv. menntamálaráðherra, að það er sama hvaðan gott kemur. Margur hefur gefið minna og séð eftir því en ekki hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar. Hann styður þessa hlutafélagavæðingu. Það er ástæða til þess að þakka varaformanni Samfylkingarinnar kærlega fyrir veittan stuðning. En svo öllu sé haldið til haga er hins vegar rétt að nefna að stuðningur varaformanns Samfylkingarinnar við hlutafélagavæðinguna er skilyrtur. Hann sagði ekki bara já. Hann sagði að mikilvægt væri að ritstjórnarlegt sjálfstæði héldist óskert og að aðgangur kjörinna fulltrúa að upplýsingum yrði fyrir hendi.

Nú skulum við líta á hvort þessi skilyrði hafa verið uppfyllt. Í fyrsta lagi er stuðningurinn við hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins og stuðningur varaformanns Samfylkingarinnar skilyrtur við það að ritstjórnarlegt sjálfstæði verði ekki skert. Til upplýsingar þá er ritstjórnarlegt sjálfstæði fréttastofa ekki tryggt í lögum sem eru í gildi í dag og að því er ég best veit hefur slíkt sjálfstæði aldrei verið lögfest. Ég bendi hins vegar á það að í því fjölmiðlafrumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi er ákvæði um ritstjórnarlegt sjálfstæði fréttastofa. Ég hygg að það sé enginn ágreiningur um það, hvorki innan þings né utan, að fjölmiðlafrumvarpið nær til Ríkisútvarpsins og fréttastofu þess eins og allra annarra fjölmiðla. Þar er kveðið á um að útvarpsstöðvar sem reka fréttastofu skuli setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði hennar og að slíkar reglur skuli samdar í samráði við starfsmenn fréttastofu og starfsmannafélag þeirra. Svo er farið nánar yfir hvað felst í ritstjórnarlegu sjálfstæði. Það merkilega við þetta er að það er þverpólitísk samstaða um að leiða eigi þessar reglur í lög. Það er því alveg ljóst að þetta skilyrði, fyrra skilyrði varaformanns Samfylkingarinnar fyrir stuðningi við þetta mál er uppfyllt.

Í öðru lagi sagði varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, í Fréttablaðinu að hann styddi það að Ríkisútvarpið yrði opinbert hlutafélag ef aðgangur kjörinna fulltrúa að upplýsingum yrði tryggður. Í því sambandi er rétt að benda á að þegar við fjölluðum um málefni Ríkisútvarpsins í fyrra lagði meiri hlutinn til að upplýsingalög yrðu látin gilda um Ríkisútvarpið. Og það sem meira er, árið 2006 var lögum um hlutafélög breytt með lögum nr. 90/2006 frá 14. júní en þá voru tekin upp í hlutafélagalögin ákvæði sem varða opinber hlutafélög. Þar er tekið sérstaklega fram að kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum ef ríkið er eigandi og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum ef sveitarfélag er eigandi, er heimilt að sækja aðalfund með rétt til að bera fram (Gripið fram í.) skriflegar fyrirspurnir. Það segir líka í lögunum, hv. þingmaður, að í samþykktum opinbers hlutafélags skuli kveða á um að ætíð skuli boða stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og endurskoðendur félagsins á hluthafafund svo og fulltrúa fjölmiðla á aðalfund. Í þessum ákvæðum er því tryggður aðgangur kjörinna fulltrúa að upplýsingum langt umfram það sem áður hefur verið gert.

Þegar maður skoðar þessa yfirlýsingu varaformanns Samfylkingarinnar aftur þar sem hann er spurður að því hvort breyta eigi Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag og skoðar síðan svarið, sem er já, að þessum skilyrðum uppfylltum, þá er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að skilyrðin hafi verið uppfyllt og því ekki hægt að draga aðrar ályktanir en þær að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, styðji þetta mál, styðji hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins eins og meiri hlutinn á Alþingi leggur til.

Ég ætla ekki að halda því fram að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hafi verið úti á túni hvað varðar stefnu Samfylkingarinnar í RÚV-málinu, þ.e. annarra þingmanna. Ég held að hv. þingmaður hafi, á þeim tíma þegar viðtalið var tekið þann 10. nóvember síðastliðinn, einfaldlega verið að segja hug sinn. Hann talaði frá hjartanu og sagði hvað honum finnst virkilega um málið og hver hans viðhorf eru. Þau eru að breyta eigi Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag.

Eins og ég sagði áðan erum við í stjórnarmeirihlutanum ákaflega þakklát fyrir þann stuðning sem við höfum fengið frá varaformanni Samfylkingarinnar í málinu. (Gripið fram í.)

Og það sem meira er, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, þá er varaformaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, svo ákveðinn og einbeittur í stuðningi sínum við málið að hann ítrekar stuðning sinn við það í Morgunblaðinu í dag. (Gripið fram í.) Það segir hér í Morgunblaðinu í dag, með leyfi forseta:

„Þar sem umræður stóðu langt fram á kvöld í gær komst Ágúst þó ekki að“ — og þá er átt við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson, varaformann Samfylkingarinnar — „en í samtali við Morgunblaðið sagðist hann ekki vera á móti því í sjálfu sér að Ríkisútvarpið væri gert að hlutafélagi að gefnum ákveðnum skilyrðum.“

Hann er sem sagt svo einbeittur og ákveðinn í stuðningi sínum í hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins að hann sér ástæðu, þrátt fyrir öll þessi frammíköll hv. þingmanna hér í salnum, til þess að ítreka stuðning sinn við hlutafélagavæðingu. Hann tínir hins vegar til nýjar afsakanir til þess að reyna að koma sér út úr þeim vanda sem hann hefur augljóslega komið sér í gagnvart sínum samflokksmönnum sem væri allt í lagi ef hann væri bara óbreyttur þingmaður eða óbreyttur félagi í Samfylkingunni. En það verður náttúrlega að líta á þetta allt saman í ljósi þess að Ágúst Ólafur Ágústsson er varaformaður Samfylkingarinnar. Hann er enginn venjulegur flokksmaður. Hann er lykilmaður í starfi Samfylkingarinnar, lykilmaður í forustu þess flokks.

Það voru svo sem tíndar til einhverjar nýjar afsakanir í þeirri ræðu sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hélt hér áðan um að hann gæti ekki stutt málið vegna þess að hann vildi að Ríkisútvarpið færi af auglýsingamarkaði, hann sætti sig ekki við nefskattinn, hann var eitthvað óhress með réttindamál starfsmanna og tíndi síðan upp einhver nýstárleg atriði varðandi samkeppnisrétt og þetta frumvarp. En maður veltir því þá fyrir sér þegar maðurinn var spurður að því hinn 10. nóvember síðastliðinn hvort breyta ætti Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag og hann sagði já, þá tiltók hann tvö skilyrði sem eru uppfyllt. Af hverju voru þessi skilyrði ekki tiltekin þá?

Það var ekki gert. Maðurinn sem hér um ræðir, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, sagði bara sinn hug. Hann var bara hreinskilinn í málinu og lýsti því yfir að hann vildi gera Ríkisútvarpið að opinberu hlutafélagi.

Þetta sýnir þann vanda sem Samfylkingin á við að etja í þessu máli. Flokkurinn er hvorki meira né minna en klofinn í afstöðu sinni til málsins. Það er ljóst að ein helsta skrautfjöður flokksins, sem hlaut eins og alþjóð veit, glæsilega kosningu í stól varaformanns á síðasta landsþingi Samfylkingarinnar, styður þetta frumvarp og meginmarkmið þess, vegna þess að meginmarkmið frumvarpsins er að breyta ríkisstofnuninni Ríkisútvarpinu í hlutafélag. (Gripið fram í.) Það er það meginmarkmið sem varaformaður Samfylkingarinnar styður í þessu máli.

Samfylkingin hefur í öllum umræðum hér, alveg frá upphafi, lagt mikið upp úr því að það sé mikill einhugur í flokknum um að það að gera eigi Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun. Það sé enginn ágreiningur uppi, sjálfseignarstofnun skuli það vera. En nú er komið í ljós að lykilmaður í Samfylkingunni styður ekki þá stefnu. Og eins og ég sagði áðan er varaformaður flokksins enginn eintrjáningur í flokknum, a.m.k. geri ég ekki ráð fyrir því, þetta hlýtur að vera maður sem á mikið undir sér og mikið fylgi innan Samfylkingarinnar. Ég geri fyrir fram ráð fyrir því að fjöldi flokksmanna í Samfylkingunni fylgi honum að málum. Það er að mínu mati ljóst að ekki sé hægt að draga aðra ályktun en þá að Samfylkingin sé klofin í þessu máli.

Nú verður að sjálfsögðu fylgst með því, og það er ágætt að hv. þm. Ágúst Ólafur viti það, og ég bið hv. samflokksmenn hans um að koma þeim skilaboðum til hans ef hann er ekki að fylgjast með ræðu minni í sjónvarpinu á skrifstofu sinni. Hann hélt hér stutta ræðu áðan og svo sáum við félagar hans á þinginu bara í iljarnar á honum vegna þess að hann hvarf héðan úr umræðunni. En það er eins gott að hann viti að nú verður að sjálfsögðu fylgst með því hvernig hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson greiðir atkvæði í málinu. Hans rétta andlit sést best á því hvernig hann greiðir atkvæði í málinu. Enda hefur hann verið að fjalla dálítið um afstöðu annarra þingmanna í öðrum málum. Hann skrifaði t.d. á heimasíðu sína 12. desember síðastliðinn, það er ekki lengra en síðan, í pistli sem bar yfirskriftina Hið rétta andlit sést í atkvæðagreiðslum. Þar segir hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, með leyfi forseta:

„Hið rétta andlit stjórnarþingmannanna sést hvað best í því hvernig þeir kjósa um einstök mál. Það er auðvelt og ódýrt að tala vel um hina og þessa í samfélaginu en þegar kemur að uppfylla þessi sömu orð þá sést hver hinn raunverulegur hugur er.“

Þá komum við náttúrlega að því sem ég nefndi áðan þegar Ágúst Ólafur Ágústsson svaraði spurningu blaðamanns Fréttablaðsins sem hljóðaði þannig: „Á að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag?“ Hann svaraði spurningunni svona: „Já, ef ritstjórnarlegt sjálfstæði helst óskert og aðgangur kjörinna fulltrúa að upplýsingum verður fyrir hendi.“

Nú skulum við sjá til hvort hv. þingmaður stendur við stóru orðin, hvort hann sýnir sitt rétta andlit í atkvæðagreiðslu. Ég boða það hér með að ég mun fylgjast sérstaklega með því.

En það er athyglisvert, herra forseti, að fara yfir þessi atriði sérstaklega í tengslum við þetta mál vegna þess að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa klifað á því, bæði í umræðunni hér og opinberlega að þeir hafi lagt sig mikið fram um það að reyna að ná einhverri samstöðu og sátt við stjórnarflokkana í þessu máli. Því er haldið fram. Nú er ég búinn að fara mjög ítarlega yfir það hver stefna Samfylkingarinnar er í þessu máli. (Gripið fram í.) Þær eru tvær, annars vegar hin auglýsta stefna sem auglýst var með lúðrablæstri og söng þann 7. desember 2006. (Gripið fram í: Hvað ertu að tala um?) Að Samfylkingin leggi til að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun. Síðan hef ég farið yfir það hvaða viðhorf einn helsti þungavigtarmaður í flokknum hefur til málsins, Ágúst Ólafur Ágústsson, hv. þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar. Hann er þeirrar skoðunar að það eigi að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag.

Svo er það Vinstri hreyfingin – grænt framboð. (Gripið fram í.) Stefna þess flokks er nokkuð skýr. Hún er sú að Ríkisútvarpið eigi áfram að vera ríkisstofnun en Frjálslyndi flokkurinn vill fara enn aðra leiðina sem ég ætla ekki að fara nákvæmlega yfir hér, frekar en áherslur Valdimars Leós Friðrikssonar sem er þingmaður utan flokka og hefur sína sérstöku stefnu í málinu.

Hvernig í ósköpunum eigum við sem erum algerlega samstiga í meiri hlutanum að geta náð einhverju samkomulagi við stjórnarandstöðuna þar sem hver höndin er upp á móti annarri og það eru meira að segja mjög mismunandi áherslur í Samfylkingunni, í einum og sama flokknum. Þannig að það er tómt mál að tala um að það sé einhver möguleiki á að ná samstöðu við stjórnarandstöðuna í þessu máli.

Nú er ég búinn að ræða töluvert mikið um forustu Samfylkingarinnar og sérstaklega um varaformanninn Ágúst Ólaf Ágústsson. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður, ég ætla nú ekki að ræða miklu meira um hann að sinni og viðhorf hans sem hann gerði lítið úr í ræðu sinni hér. En það er ástæða til að ítreka þær þakkir sem ég bar fram áðan til þessa hv. þingmanns fyrir stuðninginn í málinu. (Gripið fram í: Það er ekki málþóf, er það?)

Eins og fram kom fyrr í ræðu minni eru ýmis atriði sem þingmenn hafa viljað ræða við mig. Eitt af því er hin meintu pólitísku afskipti af stjórn Ríkisútvarpsins samkvæmt því frumvarpi sem nú er til umfjöllunar. Í umræðunni í gær nefndi hv. þm. Katrín Júlíusdóttir það sérstaklega að með frumvarpinu væri verið að herða pólitísk tök stjórnarflokkanna enn frekar frá því sem er samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi. (Gripið fram í: Og finnst henni nóg um nú þegar.) Finnst henni nóg um nú þegar, já. Ég ætla að koma örstutt inn á þetta. Þessu hefur verið haldið fram alveg frá upphafi og er auðvitað reginfirra.

Hvernig geta menn haldið því fram að með frumvarpinu sé verið að auka pólitísk ítök í Ríkisútvarpinu miðað við þau pólitísku ítök sem nú eru? Hvernig er hægt að halda því fram? Í dag er kerfið þannig að útvarpsstjóri er skipaður af menntamálaráðherra sem er að sjálfsögðu pólitískur. (Gripið fram í.) Í dag er starfandi útvarpsráð sem er pólitískt skipað. Útvarpsráð hefur með mannaráðningar og dagskrárgerð að gera. Með hinu nýja fyrirkomulagi er skipuð rekstrarstjórn sem hefur ekkert með dagskrárgerðina að gera, hún hefur ekkert með mannaráðningar að gera að öðru leyti en því að hún ræður framkvæmdastjóra.

Fram kemur í 9. gr. frumvarpsins hvert hlutverk og starfssvið stjórnarinnar er. Það er að reka útvarpsstjóra og ráða, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson mundi orða það. Að taka ákvarðanir um lán og ábyrgðir fyrir félagið, taka allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins, samþykkja fjárhagsáætlun og gera grein fyrir ársskýrslu. (Gripið fram í: En útvarpsstjórinn, hvert er hlutverk hans?) Útvarpsstjóri ræður að sjálfsögðu fólk og markar meginstefnu í málefnum félagsins. En það er augljóst að þegar menn bera saman núverandi fyrirkomulag og það sem frumvarpið gerir ráð fyrir, þá eru pólitísk áhrif minni samkvæmt þessu frumvarpi en núgildandi kerfi. Það er alveg morgunljóst. (Gripið fram í.) Það sér hver maður sem vill sjá, en auðvitað vilja sumir hv. þingmenn það ekki.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék að því í ræðu sinni að hlutverk ríkisendurskoðanda væri eitthvað óljóst eða því væri ekki nægilega vel fyrirkomið í frumvarpinu. Við meðferð þessara mála hefur menntamálanefnd fjallað mjög mikið um þetta tiltekna atriði. Við meðferð málsins innan nefndarinnar núna var m.a. fjallað um eftirlit Ríkisendurskoðunar á því hvort Ríkisútvarpið uppfyllti þá þjónustukvöð sem frumvarpið og drög að þjónustusamningi kveða á um. Ríkisendurskoðun mun koma til með að endurskoða reikninga Ríkisútvarpsins, samanber 2. málslið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 86/1987, um Ríkisendurskoðun, en getur einnig samkvæmt 9. gr. laganna framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun og með henni kannað meðferð og nýtingu ríkisfjár. Hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri hlutafélagsins og hvort gildandi lagafyrirmælum sé framfylgt í því sambandi.

Enn fremur má nefna að í drögum að samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu milli menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins ohf. er fjallað um í 6. gr. að Ríkisútvarpið skuli lúta eftirliti ríkisendurskoðanda og þar á meðal hvort Ríkisútvarpið uppfylli skyldur sínar samkvæmt leiðbeinandi reglum ríkisstyrkja og samkeppnisdeildar Eftirlitsstofnunar EFTA um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Í 2. mgr. 6. gr. samningsins kemur fram að Ríkisútvarpið skuli sérstaklega láta ríkisendurskoðanda í té upplýsingar til að sannreyna megi gegnsæi og hlutlæga kostnaðargreiningu á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins byggða á ársreikningi næstliðins árs, að teknu tilliti til tekna að frádregnum kostnaði við þann hluta starfsemi Ríkisútvarpsins sem fellur undir samkeppnisrekstur. Með þeim ákvæðum mundi ég telja að eftirlitið með fjármunum vegna almannaþjónustuhlutverks Ríkisútvarpsins sé nægilega tryggt.

Þar að auki vil ég benda á að í því framhaldsnefndaráliti sem meiri hluti menntamálanefndar lagði fram á síðasta þingi um (Gripið fram í: Síðasta þingi?) þessi atriði, sem eru náttúrlega algjörlega óbreytt frá því síðast, er vikið að hlutverki Ríkisendurskoðunar hvað eftirlitið varðar. Þar er m.a. gerð grein fyrir því að þessi sjónarmið standa, að ríkisendurskoðandi geti leitað sér sérfræðihjálpar vegna eftirlits og hafi gert það þegar hann hefur talið það nauðsynlegt. Við töldum þá og teljum enn í meiri hlutanum að Ríkisendurskoðun sé hæf til að sinna því eftirlitshlutverki sínu, enda megi nefna að hún hafi í höndum sambærilegt eftirlit með öðru félagi í ríkiseigu, Íslandspósti hf., sem hefur bæði með höndum samkeppnisrekstur og rekstur sem er bundinn í einkaleyfi (Gripið fram í.) þar sem krafa er gerð um fjárhagslegan aðskilnað samkeppnisreksturs og þess reksturs sem starfræktur er á grundvelli einkaleyfis.

Þetta allt saman eru sjónarmið sem hafa komið fram og við stöndum við. En ég vil benda á þetta, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, vegna þess að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék að þessu atriði sérstaklega í ræðu sinni. Mér finnst sjálfsagt að koma inn á þetta atriði ef ég má fyrir frammíköllum í hv. þingmanni. Reyna að svara þeim sjónarmiðum sem út af stóðu að því er hv. þingmaður taldi í ræðu sinni. Við teljum að þessu sé nægilega vel fyrirkomið. Í fyrsta lagi samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda. Í öðru lagi samkvæmt 6. gr. þjónustusamningsins. Farið er yfir þann skilning í greinargerð með frumvarpinu og sömuleiðis í bréfi fjármálaráðuneytisins til Eftirlitsstofnunar EFTA þann 9. janúar sl. Við teljum því að við höfum komið þessum málum haganlega fyrir í frumvarpinu og að ekki sé ástæða til að vera að lögfesta þetta sérstaklega í lagatextanum þar sem það liggur fyrir annars staðar bæði í samningi og í lögum.

Að lokum, herra forseti, hefur verið rætt um frumvarp um Ríkisútvarpið og tengsl þess við samkeppnisrétt, bæði íslenskan og evrópskan. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hélt ræðu áðan þar sem hann fjallaði aðallega um samkeppnisrétt. Rétt er að taka fram úr því að hann fullyrti að ég hefði í einhverri ræðu, og meiri hlutinn, haldið því fram að samkeppnislög giltu ekki um Ríkisútvarpið, að slíkar fullyrðingar eru rangar. Við höfum aldrei haldið því fram. Við höfum sagt að samkeppnislög gilda um Ríkisútvarpið að því marki sem við á, þ.e. um aðra þætti en þá sem getið er um í 3. gr. frumvarpsins um almannaþjónustuhlutverkið. Það er enginn ágreiningur um þetta nema kannski við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson. Þetta hefur komið fram í samtölum okkar við Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, og um það er enginn ágreiningur. (Gripið fram í.) Þetta hefur komið fram í umræðunni um frumvarpið á þessu þingi og gerði það líka á hinu síðasta. Því er alveg ljóst að samkeppnislögin gilda um Ríkisútvarpið. Þau gilda hins vegar ekki um almannaþjónustuþáttinn. Það er alveg rétt sem sagt er að t.d. bannákvæði samkeppnislaganna um ólögmætt samráð og misnotkun á markaðsráðandi stöðu eiga við í tengslum við Ríkisútvarpið en ekki þegar almannaþjónustuþátturinn er til umfjöllunar.

Það var sannarlega ótrúlegt að hlusta á hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson draga í efa í umræðunni áðan að það væri almennt samþykkt og viðurkennt í íslenskri lögfræði að það væri ekki þannig að sérlög gengju framar almennum lögum. Hv. þingmaður reyndi að færa rök fyrir því að svo væri ekki. (MÁ: Útúrsnúningur.) Reyndi að gera það. Ég fór í andsvar við hann og innti hann sérstaklega eftir því hvort hann teldi að svo væri. Niðurstaðan var sú að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson kom með nýstárlegar kenningar um að svo væri ekki. Ég held að allir sem hafa fjallað um þessi mál og hafa á því einhverja þekkingu séu sammála um að sérlög ganga framar almennum lögum. Það hefur Páll Gunnar Pálsson, æðsti maður samkeppnismála á Íslandi, staðfest fyrir nefndinni. Hann gerði það reyndar líka í viðtali við Fréttablaðið 5. desember 2006, með leyfi forseta:

,,Páll Gunnar segir sérlög, eins og þau sem lögð eru til með frumvarpi um hlutafélagavæðingu RÚV, ganga framar samkeppnislögum …“

Þetta hefur verið kjarninn í umsögn Samkeppniseftirlitsins. Það hefur sagt að frumvarpið fari í bága við meginmarkmið samkeppnislaga. Það kemur fram í umsögninni. Í umræðum við forstjóra Samkeppniseftirlitsins spurði ég: Gerir þá ekki núverandi fyrirkomulag það líka? Hann játti því en tók þá sérstaklega fram og það er aðalatriðið í málinu, að löggjafinn hefði eftir sem áður síðasta orðið í þessum málum. Sérlög, eins og lög um Ríkisútvarpið ohf., gengju framar almennum lögum eins og samkeppnislögunum. Ef löggjafinn grípur til þess ráðs að setja sérreglur um einhverjar sérstakar stofnanir, menn hafa gert þetta t.d. í skattamálum, í orkugeiranum o.s.frv. (Gripið fram í: Búvörulögum.) já, og í búvörulögum, þá bindur slík lagasetning hendur Samkeppniseftirlitsins til að bregðast við. Þegar forstjóri Samkeppniseftirlitsins var spurður að því í ljósi umsagnarinnar hvort Samkeppniseftirlitið mundi grípa til einhverra aðgerða ef frumvarpið yrði að lögum í þeirri mynd sem þau er nú, þá neitaði hann því. (Gripið fram í.) Þetta er því alveg klárt hvað meiri hlutann varðar. (Gripið fram í.) Ég vildi leiðrétta þennan misskilning.

Ég veit ekki hvað skal segja um frumvarpið og evrópskan samkeppnisrétt. Það er ekkert annað um reglur evrópska samkeppnisréttarins, þ.e. ríkisstyrkjareglurnar, að segja en það, eins og farið var yfir, að ríkisstyrkir eru að meginreglu til bannaðir innan Evrópusambandsins en eru þó heimilaðir með skilyrðum, m.a. þegar um er að ræða ríkisfjölmiðla sem hafa með almannaþjónustu að gera svo lengi sem almannaþjónustan sé skilgreind fyrir fram. Það er gert í frumvarpinu. Þetta er samkvæmt ákvæði sem er viðbót við sáttmála Evrópusambandsins og tekur sérstaklega til ríkisfjölmiðla þar sem þeir eru teknir út fyrir sviga.

Það var athyglisvert sjónarmið hjá Ólafi F. Friðrikssyni, sem kom fyrir nefndina til að fjalla um þessi mál, að hann taldi að skilgreining á almannaþjónustuhlutverkinu í 3. gr. og þjónustusamningnum til fyllingar væri forsenda þess að frumvarpið stæðist ríkisstyrkjareglurnar og taldi að svo væri. Þegar við lítum síðan á samskipti ESA og íslenskra stjórnvalda vegna þessara evrópsku réttarreglna á sviði samkeppnisréttar sem varða ríkisstyrki, þá fengu nefndarmenn í menntamálanefnd minnisblað um samantekt á því sem fram kemur í þessum bréfaskiptum. Í stuttu máli má segja að fyrir liggi það sem segir á bls. 2 á minnisblaðinu, að að loknum fundi Eftirlitsstofnunar EFTA og íslenskra stjórnvalda í Brussel þann 9. janúar um málefni RÚV staðfesti forstöðumaður samkeppnis- og ríkisstyrkjadeildar ESA að stofnunin hefði engar frekari athugasemdir við framgang frumvarps til laga um Ríkisútvarpið ohf. og fyrirhugaða framkvæmd laganna. (MÁ: Hverjir segja það?) Það eru ráðuneytismenn úr menntamálaráðuneytinu.

Nú veit ég ekki hvort hv. þm. Mörður Árnason ætlar að gera þá ágætu embættismenn að ómerkingum. (MÁ: Þeir sjá um það sjálfir.) Ég trúi því sem þeir segja og ég les það líka út úr þeim skjölum sem fyrir liggja í málinu. (Gripið fram í.) Ég lít þannig á og gef mér það að embættismenn í menntamálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu hafi farið rétt með þegar þeir lýstu samskiptum sínum við Eftirlitsstofnun EFTA. (Gripið fram í.) Hv. þm. Einar Már Sigurðarson má alveg hafa aðra skoðun eins og hv. þm. Mörður Árnason. Þetta er mín skoðun og ég tel að það liggi fyrir núna að samskipti ESA og íslenskra stjórnvalda hafi leitt til þess að hafi verið einhver ágreiningur uppi um hvort verið væri að brjóta samkeppnisreglur Evrópuréttarins með frumvarpinu hafi þeim misskilningi verið eytt eða þeim áhyggjum og þær séu ekki lengur til staðar.

Herra forseti. Ræða mín er orðin miklu lengri en efni stóðu til, m.a. vegna þess að lengi framan af hafði ég varla tækifæri til að flytja ræðuna vegna frammíkalla frá stjórnarandstæðingum, sérstaklega þingmönnum Samfylkingarinnar, sem hlýtur að vera brugðið þegar varpað er með svo skýru ljósi afstöðu varaformanns Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) sem hefur lýst yfir stuðningi við frumvarpið og hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Því miður treysti varaformaður Samfylkingarinnar, einhver helsti hugmyndafræðingur þess flokks, sér ekki til að sitja undir þessum lestri og yfirferð um fyrri ummæli hans. Ég mun þá nota tækifærið þegar kemur til atkvæðagreiðslu um málið til að rifja upp ummæli hans í Fréttablaðinu þann 10. nóvember og sömuleiðis fylgjast með því hvort hann sýni sitt rétta andlit en hann hefur sjálfur, varaformaður Samfylkingarinnar, hvatt aðra kollega sína til að gera það. Það verður fróðlegt að sjá hvort varaformaður Samfylkingarinnar stendur undir ábyrgðinni.