133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:49]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var afar athyglisverð ræða sem hér var flutt. Það má eiginlega orða það þannig að um tíma hafði hún nokkurt skemmtanagildi en eftir það var hún svona þófkennd og hefði verið auðvelt að túlka hana þannig að um málþóf hafi verið að ræða.

Í ræðunni kom í raun og veru aldrei fram hver hugmyndafræðin er á bak við það frumvarp sem hér liggur fyrir því í reynd er það þannig að það er verið að breyta ríkisstofnun í ríkishlutafélag og setja það síðan út á markaðinn án eftirlits, með öðrum orðum þá er verið að búa til eitthvert ríkis-óargadýr sem getur starfað á markaði alveg eins og því sýnist. Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn taldi sig standa fyrir samkeppni, heilbrigðri samkeppni á jafnræðisgrunni og þar sem samkeppnisrekstur væri til staðar þar ætti ríkið ekki að vera.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig réttlætir hann það að ríkishlutafélag með forgjöf æði út á markaðinn á þann hátt sem (Forseti hringir.) hér um ræðir án þess að um það gildi samkeppnislög eins og kom fram í ræðu hans áðan?