133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:52]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu andsvari kom ekkert fram um þá hugmyndafræði sem býr að baki því að búa til ríkishlutafélag og hleypa því út á markaðinn á þann hátt sem hér um ræðir.

Gott og vel, hv. þingmaður sagði: Samkeppnislögin gilda annars staðar en þar sem um almannaþjónustu er að ræða, þ.e. þau 13 boðorð sem eru í frumvarpinu. Þá vaknar spurning sem a.m.k. leitar á mig eftir lestur þessara 13 boðorða sem svona ramma inn hvað telst til almannaþjónustu: Er hægt að fá dæmi frá hv. þingmanni um það sem ekki fellur undir almannaþjónustuna miðað við þá 13 töluliði sem hér eru? Mér þætti gaman að heyra hvaða starfsemi það er sem fellur ekki undir almannaþjónustuna miðað við þá skilgreiningu sem hér er því sú starfsemi er mjög vandfundin en mér þætti vænt um að heyra nokkur einstök dæmi um starfsemi sem ekki fellur undir almannaþjónustu og heyrir þar af leiðandi undir samkeppnislög.