133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:00]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr raunar um annað mál sem ekki hefur enn þá verið leitt til lykta hér í þingsölum þannig að kannski er ekki tímabært að kveða upp úr um lyktir þess. Hitt er rétt sem þingmaðurinn minnir á, að í sjávarútvegsmálakaflanum í stefnu flokksins segir að flokkurinn beiti sér fyrir að ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign þjóðarinnar fari inn í stjórnarskrána. Það ákvæði er í stjórnarsáttmálanum sem er í gildi.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá.“

Ég geri þannig ráð fyrir því að stjórnarflokkarnir beiti sér fyrir því að uppfylla þetta ákvæði stjórnarsáttmálans við afgreiðslu á frumvarpi um breytingu á stjórnarskránni fyrir kosningar í vor.