133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

lífeyrisréttindi starfsmanna RÚV – málefni Byrgisins.

[10:36]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í morgun funduðu hv. fjárlaganefnd og félagsmálanefnd með ríkisendurskoðanda um málefni Byrgisins, afar mikilvægt mál sem er nauðsynlegt að fara vandlega yfir. Á þessum fundi komu fram mjög alvarlegar upplýsingar. Það lá einnig fyrir að fyrir fundinn kæmu fulltrúar frá félagsmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti en vegna þess hversu stórt málið er og alvarlegt komust ekki fleiri inn á fundinn en ríkisendurskoðandi áður en fundur í Alþingi skyldi hefjast. Af þeim sökum óskuðum við eftir því að þingfundi yrði frestað, við fengjum að ljúka málinu í samfellu og fara yfir það með ráðuneytunum því að það er mikilvægt að svona mál séu afgreidd á þennan hátt, þau séu afgreidd í einu lagi.

Einnig dregur þetta fram að sú þráhyggja hæstv. menntamálaráðherra að keyra málefni Ríkisútvarpsins áfram gerir það að verkum að störf þingsins eru algerlega úr skorðum gengin. Það kemst ekkert á dagskrá nema þetta tiltekna mál og það er ekki einu sinni hægt að ljúka jafnalvarlegum málum og því sem við vorum að ræða í morgun þar sem um 200 millj. hafa runnið að mestu leyti eftirlitslausar úr ríkissjóði á undanförnum árum. Mér finnst þetta afar alvarlegt mál, virðulegi forseti, og vil koma því á framfæri við hæstv. forseta að þótt málefni Ríkisútvarpsins og vilji meiri hlutans sé mikilvægur er mikilvægt að störf þingsins geti haldið áfram á þann hátt að sómi sé að og við getum tekið á þeim málum sem þarf að taka á þegar þau koma upp. Því harma ég það mjög (Forseti hringir.) að ekki hafi verið hægt að fá fram frestun á þingfundi og halda áfram þeim fundi sem við vorum á í morgun.