133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

lífeyrisréttindi starfsmanna RÚV – málefni Byrgisins.

[10:38]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Vegna þess sem kom fram í máli hv. þm. Valdimars L. Friðrikssonar áðan vil ég sérstaklega geta þess að ég mun síðar koma inn á þessi atriði í ræðu. Ég tel þetta vera efnislega umræðu í því máli sem við höfum verið að ræða á undanförnum dögum þannig að ég mun sérstaklega koma inn á starfsmannamálin og lífeyrismál starfsmanna Ríkisútvarpsins í ræðu minni á eftir. Hitt er annað mál að það er auðvitað umhugsunarefni hvernig þinghaldið er að þróast, frú forseti. Við erum búin að ræða núna frumvarpið um Ríkisútvarpið lengur en t.d. EES-málið á sínum tíma. Það var rætt í 100 klukkustundir og 36 mínútur, svo að nákvæmlega sé farið með. Þingið er núna búið að ræða Ríkisútvarpið lengur en t.d. Kárahnjúkamálið. Við erum búin að ræða það þrisvar sinnum lengur, og hvað segir það manni?

Ég tek heils hugar undir með þingmönnum. Þetta er afar mikilvægt mál. Þetta er brýnt mál. Það er það brýnt að við þurfum að koma því í gegn til að stuðla að því að Ríkisútvarpið geti haldið áfram að efla menningarhlutverk sitt. (ÖJ: Er það réttinda…?) (Gripið fram í.) Um leið er það umhugsunarefni að t.d. vinstri grænir telji þetta mál mikilvægara en Kárahnjúkamálið, að Samfylkingin telji þetta mál mikilvægara en EES. Þetta er þeirra mat á þingmálum hér. Ég segi: Ég tek heils hugar undir með þingheimi um að þetta er mikilvægt mál og það þarf að ræða. En er ekki nóg komið? Er ekki rétt að þingið fái þann lýðræðislega rétt að greiða atkvæði um þetta mál? (Gripið fram í.) Það er búið að ræða þetta mál nóg. Að mínu mati erum við búin að fara gaumgæfilega í gegnum öll atriði. Nú er mál að linni. (Gripið fram í.) Ég tel (Forseti hringir.) og það er mín skoðun að við eigum að greiða atkvæði um Ríkisútvarpið en núna eru eflaust ýmis atriði sem þingmenn vilja ræða frekar um Ríkisútvarpið.