133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

nefndafundur um málefni Byrgisins.

[10:54]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta til að vekja sérstaka athygli á því að stjórnarskráin okkar færir þinginu það hlutverk að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, veita stjórnsýslunni aðhald, fara yfir þá starfsemi sem þar fer fram og ganga úr skugga um að hún sé lögum samkvæmt.

Í morgun var Alþingi að vinna að þessu verkefni. Í morgun funduðu félagsmálanefnd og fjárlaganefnd þar sem farið var yfir stjórnsýslu ráðuneytanna þar sem þingið var að vinna sitt stjórnskipulega hlutverk. Við óskuðum eftir því að formaður fjárlaganefndar færi þess á leit við forseta Alþingis að fundum yrði frestað um stund svo að við gætum unnið þetta stjórnarskrárbundna og lögbundna hlutverk okkar svo að vel færi. Við því var ekki hægt að verða og það finnst mér mjög alvarlegt því að hér er um stóralvarlegt mál að ræða og það er afar slæmt ef þingið getur ekki klárað þetta í samfellu. Þess í stað hefur verið ákveðið að funda aftur á morgun og sennilega verða fundir eitthvað áfram eftir það eftir því hvernig fram vindur í þessu ríkisútvarpsmáli.

Það getur ekki verið að þetta mál sé svo merkilegt eða mikilvægt að þingið geti ekki sinnt öðrum störfum á meðan það gengur yfir. Þess vegna ítreka ég þá ósk, virðulegi forseti, að þingfundum verði frestað meðan þingnefndir vinna að sínum lögbundnu og stjórnarskrárbundnu verkefnum. Mér finnst þau miklu mikilvægari nú um stundir, og þessi forgangsröðun er að minni hyggju algerlega óásættanleg. Því ítreka ég þessa fyrirspurn, virðulegi forseti. Hér hafa nokkrir þingmenn gert það, það hefur ekki komið svar en óskin stendur áfram um að þessir nefndir geti fundað, farið yfir þetta verkefni og klárað sín mál á viðunandi hátt.