133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:12]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hefur komið fram í umræðum á þingi í morgun að fjárlaganefnd og félagsmálanefnd hittust á sameiginlegum fundi í morgun og ræddu við ríkisendurskoðanda um málefni Byrgisins, sjálfseignarstofnunar. Það er alveg hárrétt að þar er um grafalvarlegt mál að ræða sem hv. fjárlaganefnd og félagsmálanefnd þurfa að fara í gegnum. Í fyrramálið munum við hitta fulltrúa félagsmálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins til þess að fara yfir þetta mál heildstætt. Fundurinn verður klukkan átta í fyrramálið og ég tel mjög mikilvægt og vonast til þess að þverpólitísk samstaða sé um að við könnum þessi mál og ræðum almennt um það hvernig þeim fjármunum sem veittir eru af fjárlögum til aðila sem eru að sinna ýmsum verkefnum í samfélaginu er varið og hvort rétt er staðið að úthlutun þeirra og hvort við þurfum ekki að hafa skýrari reglur hvað það varðar. Þetta er allt saman vinna sem við eigum eftir að fara í gegnum.

Hins vegar geta hv. þingmenn eins og hv. þm. Kristján L. Möller haft uppi ýmis orð um þann sem hér stendur en ég fullyrði að ég hef komið að þessum málum af fullum heilindum. (Gripið fram í.) Sú skýrsla var m.a. rædd á Alþingi Íslendinga árið 2002 (Gripið fram í.) í fyrirspurn frá hv. þm. Kristjáni Pálssyni þar sem Halldór Ásgrímsson var til svara.

Hæstv. forseti. Í samkomulagi sem var gert 14. apríl árið 2003, var samið milli félagsmálaráðuneytisins og Byrgisins um hvernig og hvaða kröfur væru gerðar til þeirrar starfsemi. (Gripið fram í: Óundirskrifað?) Það var skrifað undir það samkomulag. Þar átti Byrgið að stofna sjálfseignarstofnun, taka til í fjármálum sínum og ég stóð í þeirri trú og svara af fullri hreinskilni þegar ég yfirgef ráðuneyti félagsmála, að það yrði gengið til samninga við Byrgið. (Gripið fram í.) Hins vegar get ég tekið þá ábyrgð á mig á haustmánuðum árið 2003 þegar ég fór í fjárlaganefnd að ég hefði trúlega, eftir á að hyggja, átt að ganga eftir því við félagsmálaráðuneytið að búið væri að ganga frá þessum málum. Ég einfaldlega treysti þeim eftirlitsaðilum sem eiga að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga og það má þá saka mig um að ég sé spilltur maður eins og hv. þm. Kristján Möller var að gefa í skyn. Ég hef unnið af heilindum í þessu máli og ég tek það á mig að ég hefði trúlega eftir á að hyggja átt að kanna þessi mál í félagsmálaráðuneytinu eftir að ég settist í fjárlaganefnd og ég stend við þau orð.