133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:15]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér, þótt undir þessum dagskrárlið sé, að bjóða formann Framsóknarflokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hjartanlega velkominn til þings. Honum brá fyrir í hliðarsal áðan og gott ef hann kom ekki aðeins inn í salinn. Ég verð að segja að það gladdi mitt hjarta að sjá að hæstv. ráðherra og formaður Framsóknarflokksins er heill heilsu og enn í embætti og hyggst nú mæta hér til umræðna um þetta mál eins og óskað hefur sérstaklega verið eftir, þ.e. um dagskrármálið, virðulegi forseti.

Ég hef áhuga á því að forseti vor, og því kveð ég mér hljóðs undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, að forseti upplýsi nú eitthvað um fyrirhugað fundarhald á næstunni. Það hefur verið hér mjög til umræðu að málin eru keyrð fram með þvílíku offorsi að hefðbundnum störfum Alþingis er rutt til hliðar. Nýlegasta dæmið er það að þingnefndir fá ekki þann tíma sem þær þurfa til að fjalla um grafalvarleg mál og verða að gera rof í vinnu sinni og slíta sundur fundi vegna þess að forsetinn getur ekki, eða þá formaður nefndarinnar, sýnt liðlegheit í þeim efnum. Það ríkir slíkt hernaðarástand á Alþingi að þetta óskabarn stjórnarflokkanna, sérstaklega Framsóknarflokksins, og sérstaklega hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar, að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið, er keyrt áfram með þvílíku offorsi að það er engin liðlegheit hægt að sýna gagnvart hlutum af þessu tagi.

Það alvarlega er ekki, virðulegur forseti, að það standi sem um var talað fyrir jól, að frumvarp um Ríkisútvarpið verði hér aðalmál á dagskrá og til umræðu eitt mála, það alvarlega er að ekki skuli virtur réttur þingmanna svo sem að fá svarað fyrirspurnum, að ekki sé hægt að greiða fyrir störfum þingnefnda þannig að þau gangi eðlilega fram, að réttur þingmanna til að taka upp mál utan dagskrár í allt að hálfa stund á hverjum þingfundi sé ekki virtur. Ef forsetar sýndu þessu eðlilegan skilning og virðingu en létu síðan umræður að öðru leyti snúast um málefni Ríkisútvarpsins, þá væri í raun og veru ekki yfir neinu að kvarta. Þá væri það í samræmi við það sem við máttum búast við, stjórnarandstæðingar, og biðjumst ekki undan því.

Svo verð ég að segja, virðulegi forseti, að hér fóru fram undarlegar æfingar áðan þegar menn lögðu saman umræður um þrjú frumvörp á þremur þingum og fengu það út að þar með væri búið að ræða um þetta mál lengur en ýmis önnur. Hvers konar rugl er þetta? Það vita jú allir sem eitthvað vita um störf Alþingis að þingmálin vakna ekki á sama stað, heldur verður að flytja þau á nýjan leik á hverju þingi þannig að nýjar þrjár umræður byrja o.s.frv. Þessar samanburðaræfingar eru út í loftið og sýna ekki neitt.

En ég held að það væri til góðs að virðulegur forseti segði nú hér eitthvað um það (Forseti hringir.) hvernig ætlunin er að standa að þingstörfum á næstunni.