133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:18]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér fundarstjórn forseta. Ég vil leyfa mér að fara fram á það að hæstv. forseti geri nú hlé á þingfundi og kalli saman formenn þingflokka og reyni að komast að einhverju samkomulagi um það hvernig störfum þingsins verði háttað. Ekki bara í dag, ekki á morgun, heldur í framtíðinni. Það er mjög brýnt að við fáum botn í það mál.

Það hefur margoft komið fram í ræðum hv. þingmanna að hér ríkir upplausnarástand. Sumir hafa jafnvel kallað það herlög. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál að þjóðin skuli verða vitni að því að stjórn þingsins skuli vera í þvílíkum heljargreipum að hér gangi hvorki né reki. Hér erum við hjakkandi í sama farinu.

Frú forseti. Fyrirspurnatímar eru lagðir niður. Þingnefndir fá ekki tíma til að funda. Hér eru kvöldfundir hvað eftir annað til miðnættis. Utandagskrárumræður eru ekki leyfðar. Þetta er mjög einkennilegt ástand en vegna þess að ég veit að þegar hæstv. forseti leggur mikið á sig þá getur hún jafnvel náð samkomulagi um erfið mál og ég held að sá tímapunktur sé einmitt kominn.

Vegna ummæla hæstv. menntamálaráðherra áðan um þetta meingallaða frumvarp, um Ríkisútvarpið ohf., þá er alltaf að koma betur og betur í ljós, frú forseti, hversu gallað þetta frumvarp er. Því er haldið fram að búið sé að tala um frumvarpið í 100 klukkutíma og það er allt í einu orðinn einhver mælikvarði á það hversu mikilvægir hlutirnir eru.

Ég spyr: Hélt ekki Sjálfstæðisflokkurinn uppi málþófi fyrir nokkrum árum þegar hann var í stjórnarandstöðu? Málþófi gegn hverju? Jú, gegn því að hér yrði komið á laggirnar umhverfisráðuneyti. Menn töluðu hér gegnum alla nóttina. Lásu hér eitthvað upp, ég veit ekki hvort það voru ástarsögur (Forseti hringir.) eða sakamálasögur.