133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:21]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að inna hæstv. forseta eftir því hvort orðið verði við kröfu Samfylkingarinnar um að málefni Byrgisins verði rædd hér utan dagskrár í dag. Þingmenn hafa rétt til þess samkvæmt þingskapalögum að fá slíka umræðu um mál sem þeir telja brýn og aðkallandi svo fremi sem þeir geri það með hæfilegum tímafresti. Við báðum um þessa umræðu fyrir sennilega þremur dögum. Ég hef ekki enn fengið skýr svör frá hæstv. forseta um það hvenær sú umræða á að fara fram. Við vildum fá hana í gær og við viljum fá hana í dag. Það er réttur okkar að geta krafist umræðunnar.

Ég inni þess vegna hæstv. forseta eftir því hvort að Samfylkingin fær þessa umræðu um Byrgið í dag eða ekki. Komið hefur skýrt fram að það er ærið tilefni til. Það liggur fyrir að allir ráðherrar Framsóknarflokksins sem málið varðar, og aðrir frá Framsóknarflokknum, vísa ábyrgðinni á einhverja allt aðra en þá sem kjörnir eru til að fara með málaflokka, kjörnir til þess að stýra ráðuneytum.

Einhver hlýtur að bera ábyrgðina á þessu, frú forseti. Það er ekki hægt að kasta því eins og heitri kartöflu. Hvers vegna fær Samfylkingin ekki að ræða hina fjárhagslegu ábyrgð á málinu á þinginu? Þetta er krafa sem ég sem formaður þingflokks Samfylkingarinnar neyðist til að undirstrika hér úr ræðustóli. Það gengur ekki að það ríki hálfgerð herlög á Alþingi þar sem réttur þingmanna lögum samkvæmt er ekki virtur.

Því er haldið fram að hér standi málþóf í málinu sem undir er, þ.e. Ríkisútvarpinu. Ég vil að það komi algjörlega skýrt fram að stjórnarandstaðan hefur lagt fram formlegt sáttaboð til ríkisstjórnarinnar. Við höfum sagt að við séum reiðubúin til að greiða fyrir för frumvarpsins um Ríkisútvarpið ohf. og ljúka því þess vegna á tveimur, þremur tímum hér í þinginu, svo fremi sem fallist sé á að gildistökuákvæði frumvarpsins sé skotið aftur í tímann þannig að frumvarpið verði ekki að lögum fyrr en 1. júlí.

Þá liggur það fyrir að í reynd verður kosið um þetta í alþingiskosningum og sömuleiðis að sú ríkisstjórn sem tekur við að kosningum loknum getur ráðið því hvort lögin verða þá afnumin áður en þau koma til framkvæmda eða, ef núverandi ríkisstjórn heldur velli, að þau komi hreinlega til framkvæmda. Er það ekki lýðræði, frú forseti? Liggur ekki fyrir að það verða kosningar 12. maí? Það eina sem við erum í reynd að tala um er að fresta gildistökunni frá 1. apríl og fram yfir kosningar. Geta menn sagt að þetta sé ósanngjarnt? Að sjálfsögðu ekki.