133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:25]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntamálaráðherra kvaddi sér hljóðs fyrr í dag undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins og vakti athygli á málefni sem á að vissu leyti einnig erindi undir þessum dagskrárlið, um fundarstjórn forseta. Hæstv. ráðherra sagði að tími væri til kominn að menn afgreiddu frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið ohf. og létu lýðræðislegan vilja ráða. Vinnubrögð stjórnarandstöðunnar væru í raun andlýðræðisleg. Það mátti ráða af orðum hæstv. ráðherra að henni þættu vinnubrögð stjórnarandstöðunnar vera ólýðræðisleg.

Ég spyr: Áttum við þá ekki að afgreiða með hraði frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið sf. þegar það kom fyrst fram? Því var vísað til baka og byrjað að breyta þessu frumvarpi í ýmsum grundvallaratriðum. Átti ekki sama að gilda þegar þingið fékk í hendur frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið hf.? Einnig því var vísað til baka og viðurkennt að einnig það væri meingallað og þörf á að gera á því miklar breytingar. Nú höfum við í hendi frumvarp ríkisstjórnarinnar hið þriðja í röðinni, Ríkisútvarpið ohf. Nú er að koma á daginn að einnig það er stórgallað. En málið snýst ekki bara um þetta, um hinn lýðræðislega vilja innan þingsins. Við erum að fjalla um stofnun sem við í stjórnarandstöðunni teljum mjög brýnt að víðtæk sátt ríki um í samfélaginu öllu, það sé óeðlilegt að knýja fram breytingar á lagaramma um Ríkisútvarpið með naumum meiri hluta á Alþingi.

Sáttatilboðið sem stjórnarandstaðan hefur lagt fram í þessari umræðu gengur út á að gera lágmarksbreytingar, nauðsynlegar breytingar á lögum um Ríkisútvarpið og reyna að leita sátta um það sem út af stendur. Út á þetta gengur sáttagerð okkar og á hana er slegið.

Nú spyr ég: Hver er það sem vill fara fram á lýðræðislegum forsendum um þetta mál? Það er stjórnarandstaðan sem er að reyna að fá því framgengt að þannig sé tekið á þessum máli. Á lýðræðislegum (Forseti hringir.) forsendum.