133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þingstörfin fram undan o.fl.

[11:50]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er á þeirri skoðun að hæstv. forseti þurfi að líta svolítið í eigin barm vegna þess hvernig mál standa hérna núna. Hæstv. forseti hefur með ákvörðunum sínum um það hvernig þinghaldinu er fram haldið tekið ákvarðanir um að víkja þingsköpum til hliðar. Það var ekki fyrirspurnatími hér í gær vegna þess að hæstv. forseti ákvað að þinghaldinu skyldi fram haldið með þessum hætti, en samkvæmt þingsköpum eiga þingmenn rétt á því að fá fyrirspurnum sínum svarað og til þess er sérstakur dagur ákveðinn á dagskrá Alþingis að það sé gert. Auk þess eru fyrirmæli um að ráðherrar skuli svara þessum fyrirspurnum eftir vissan tíma í síðasta lagi og forseti þarf að fylgja því eftir að þeir fái til þess tækifæri. Það hefur ekki verið gert.

Þegar menn tala um að stjórnarandstaðan taki hér mál í gíslingu með málþófi eins og það er kallað er eins og menn horfi alltaf fram hjá því að málefni sem lögð eru fram af almennum þingmönnum hér eru öll í gíslingu. Þau fást ekki rædd ár eftir ár, þau sofna í nefndum. Hæstv. forseti þarf að hafa allt Alþingi og alla alþingismenn í huga þegar hann stjórnar málefnum á Alþingi. Mér finnst hæstv. forseti ekki hafa litið þannig á málið og þetta mál sem hér er verið að ræða núna, þ.e. hvernig eigi að ganga fram í þessu ríkisútvarpsmáli, er ágætt dæmi um það. Hæstv. forseti víkur þingsköpum til hliðar til að verða við kröfum — um hvað? Um að menn haldi áfram þriðja veturinn að tala um sama málið sem er svo illa undirbúið að það er enn til umræðu á þingi í þriðja sinn við 3. umr. þess núna (Gripið fram í.) með ýmsum breytingartillögum frá meiri hlutanum.

Mér finnst að forseti eigi að gera meiri kröfur til undirbúnings mála en svo að hann láti setja þinghaldið allt í upplausn út af málefnum sem svo illa eru undirbúin. Ég get líka sagt það að mér finnst óviðunandi að Alþingi allt skuli sitja sífellt undir því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar geti komið hér inn með mál hvenær sem er og gert þá kröfu til embættisins að það sjái til þess að þeim sé þrengt í gegnum þingið. Ég tel ekki að það sé neinn sérstakur lýðræðisstimpill á þessu máli, ég sé ekki betur en að Framsóknarflokknum hafi verið þrengt til þess (Forseti hringir.) að samþykkja hluti sem flokkurinn sjálfur hefur ekki samþykkt.