133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þingstörfin fram undan o.fl.

[11:53]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hlýt að leiðrétta það hér að það hafi verið með einhverjum ókurteislegum hætti sem hér var tekið til máls um ummæli forseta að loknu hádegishléi í gær. Það var ekki mikill tími til að bregðast við ummælum forsetans sem komu fram í hádegisfréttum Stöðvar 2 en það var þó reynt að ná til hennar. Þar sem það var ekki hægt var komið til hennar skilaboðum. Ég hafði enga ástæðu til að halda að forseti væri annars staðar. Síðan bárust, þegar þessi umræða var hafin án þess að forseti mætti til hennar, þau skilaboð í gegnum þann varaforseta sem gegndi störfum á meðan að forseti væri í opinberum erindagjörðum. Ég brást við þeim skilaboðum með því að kynna það að ég mundi taka þetta upp þegar forseti væri hér komin aftur.

Þegar hún sást hér næst var það í miðri ræðu þingmanns, hún kom hér í forsetastól og fór úr stólnum áður en þeirri ræðu lauk þannig að ekki reyndist unnt að eiga þessar samræður við hana þá. Ég hringdi síðan í forseta í gærkvöldi og þá var hún upptekinn í einkaerindum sem eðlilegt er — þó að aðrir gætu sum sé ekki sinnt sínum einkaerindum. Ég tjáði þá forsetanum að þetta yrði tekið upp við næsta tækifæri sem er einmitt núna.

Ég þakka hins vegar forseta fyrir þá ræðu sem hún flutti hér áðan því að mér heyrðist — það er rétt að íhuga hana síðar þegar betra tækifæri er til — að þar væri einmitt tekið undir það sjónarmið mitt og fleiri þingmanna hér að breytingar á þingsköpum yrðu að vera í samhengi og ef menn ætluðu að hreyfa við hinum ótakmarkaða ræðutíma sem hér gildir og í öldungadeild Bandaríkjaþings yrði að breyta öðrum hlutum þingskapanna um leið, m.a. þeim sem ég nefndi.

Ég harma það að forseti virðist ekki bera gæfu til þess að koma þessum breytingum á sem boðaðar voru í fyrstu ræðu hins kjörna forseta hér á þinginu, ásamt þeim breytingum að gera þennan vinnustað fjölskylduvænni þannig að mæður og feður og fjölskyldufólk allt gætu sameinað þetta starf fjölskyldunni eins og lög í landinu kveða á um, nefnilega jafnréttislög. Það virðist forseti ekki bera gæfu til að rækja heldur eins og sést á þeirri herlagaviku sem við stöndum nú í miðri.