133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þingstörfin fram undan o.fl.

[11:56]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég sé mig knúinn til að blanda mér aðeins í umræðu hér um þingsköp og ræðutíma og samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu og Alþingis og framkvæmdarvalds, þótt undir þessum dagskrárlið sé, m.a. í framhaldi af yfirlýsingu forseta hér áðan og fleiri umræðum. Ég vil segja það fyrst að ég held að það sé ákaflega óheppilegt að missa umræður um þingsköp, ræðutíma og tilhögun þeirra hluta og skipulag starfa hér inn í umræður um þetta harðpólitíska deilumál sem er síðan til umfjöllunar að öðru leyti á þingi.

Almennt er það þannig að umræður hér á þingi hafa þróast í átt til mikillar styttingar og með örfáum undantekningum á síðustu árum þar sem í öllum tilvikum eru mjög stór og hörð ágreiningsmál hafa umræður verið að styttast og hefðir að því leyti hér þróast í átt sem réttilega er bent á að sé venjan í mörgum öðrum þjóðþingum. Það verður þó að hafa í huga að það er hæpið að bera saman hið litla Alþingi Íslendinga og mörg hundruð manna samkomur sem starfa með allt öðrum hætti þar sem samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu eru með öðrum hætti og þar sem staða þjóðþinganna gagnvart framkvæmdarvaldinu er mun sterkari en hér. Þetta verða menn allt að hafa í huga, virðulegur forseti, þegar þeir ræða þessi mál, líka það eðli stóru þjóðþinganna að þar skipta þingnefndir og umræður í þeim, oft á opnum fundum, mun meira máli, hafa meira vægi þannig að umræðurnar í sjálfum þingsalnum eru meira eins og lokapunkturinn á viðameiri umfjöllun þinganna á öðrum vettvangi.

Þetta mál snýst ekki fyrst og fremst um samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu, meiri hlutans og minni hlutans á þingi. Þetta snýst um samskipti þingsins og framkvæmdarvaldsins vegna þess að aðhaldið að framkvæmdarvaldinu kemur eðli málsins samkvæmt frá stjórnarandstöðu, frá minni hluta þar sem situr þingbundin ríkisstjórn. Það er ekki hægt að ætlast til þess að meiri hlutinn sem sú ríkisstjórn styðst við sjái fyrir því aðhaldi. Og meðan því er þannig háttað hér að staða Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu er jafnveik og raun ber vitni og fer versnandi er ég ekki til viðtals um einhliða breytingar á reglum um ræðutíma, helsta vopni og helsta styrk stjórnarandstöðunnar í þessum samskiptum og helsta aðhaldstæki þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ef við værum að ræða hér um þjóðþing þar sem stjórnarandstaðan hefði mun sterkari stöðu, þar sem forsetinn kæmi úr hennar röðum, þar sem formenn þingnefnda væru í bland úr stjórnarandstöðunni eins og hér var á kjörtímabilunum 1991–1995 og 1995–1999, væri öðru til að dreifa. En því miður hefur þar orðið afturför eins og allir þekkja.

Ég mæli með því, virðulegur forseti, að við reynum að koma þessari umræðu um þingsköp og þá hluti (Forseti hringir.) fyrir á öðrum vettvangi en inni í þessum hörðu deilumálum og þar verður forseti líka að hugsa sinn gang samanber þau ummæli hennar frá því í gær sem hér hefur verið vitnað til.