133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þingstörfin fram undan o.fl.

[12:00]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil segja það að ummæli hæstv. forseta í sjónvarpsfréttum í gær voru afar óheppileg. Um leið vil ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. forseti gaf áðan og setti ummælin þá í eðlilegt samhengi. Í raun tók hæstv. forseti undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, að nauðsynlegt sé að breyta þingsköpum. Hæstv. forseti hefur sagt það áður en það verður þá að gera það í samhengi við störf þingsins í heild sinni, það verður að skoða það í því ljósi að í dag er eina vörn þingsins gegn yfirgangi framkvæmdarvaldsins sú að tala mikið og fara vandlega yfir mál. Það er ekki það vopn sem þingið sækist eftir í raun. Þingið getur veitt framkvæmdarvaldinu og ríkisstjórninni á hverjum tíma miklu betra aðhald á annan hátt en þann og ef taka á þetta vopn þingsins af því verður vitaskuld að færa þinginu önnur vopn í hendur.

Það er mikilvægt að þessi umræða fari fram en hún er þó ekki þess eðlis að hún eigi heima í umræðu um Ríkisútvarpið. Hún varð hins vegar til vegna óheppilegra ummæla forseta í gær. Það er mikilvægt að þingmenn sjálfir taki umræðu um ósjálfstæði þingsins og geri það undir viðeigandi dagskrárlið. Sú umræða verður að hafa það að markmiði að efla og styrkja þingið. Það er það sem við viljum sjá og við viljum að þingið sé í fyrsta lagi umræðuvettvangur, í annan stað veiti þingið framkvæmdarvaldinu eðlilegt aðhald og í þriðja lagi sé hér um löggjafarsamkundu að ræða.

Því miður höfum við lifað við það núna, a.m.k. þessa viku, að réttindum þingmanna á ákveðnum sviðum hefur verið kippt úr sambandi. Það hefur verið farið yfir það að þingmenn hafa ekki átt þess kost að koma að fyrirspurnum eða fá umræðu utan dagskrár sem menn eiga rétt á. Í þessum skilningi hafa þingmenn verið sviptir réttindum vegna þess eins að ríkisstjórnin hefur áhuga á því að koma máli í gegn sem hún hefur reynt að koma í gegn í þrjú ár. Það réttlætir í huga hennar það ástand sem hér ríkir sem hæstv. forseti (Forseti hringir.) ber að sjálfsögðu ábyrgð á þegar upp er staðið.