133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þingstörfin fram undan o.fl.

[12:06]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég verð að lýsa algjörri furðu á þessari fundarstjórn hjá hæstv. forseta, að hann skuli leggja hér alla áherslu á eitt mál sem er að vísu forgangsmál hjá Sjálfstæðisflokknum og einhvern veginn drattast Framsókn á eftir. Það er svo undarlegt að þetta mál gengur þvert á samþykktir Framsóknarflokksins en samt sem áður fylgir hann Sjálfstæðisflokknum hér eftir, mjög leiðitamur.

Ég verð að lýsa furðu á þessari fundarstjórn, að hæstv. forseti komi í veg fyrir að tekin séu á dagskrá mál sem þjóðþingið þarf að ræða, svo sem það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn sólundar fé, fer með það út og suður. Þá hafa verið nefnd hér í umræðunni málefni Byrgisins og það er ekki bara að þetta hafi komið fram hér í umræðunni heldur er komin til skýrsla Ríkisendurskoðunar. En Sjálfstæðisflokkurinn með hæstv. forseta í forsvari stýrir umræðunni þannig að þetta fæst ekki rætt. Það er alveg stórundarlegt en það er ekki í fyrsta skipti sem forseti gerir þetta.

Ég verð að minna á það að þegar hér voru fyrirspurnir reyndi forseti að koma í veg fyrir umræðu um sjávarútvegsmál af því að þau eru viðkvæm líka, eins og málefni ríkisins hvað varðar fjárreiður, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn deilir út peningum þó svo að svört skýrsla liggi fyrir sem formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, hefur samið sjálfur. Samt sem áður heldur hann áfram að deila út peningum. Þetta er það sem er að gerast.

Það er gerræðisleg fundarstjórn hjá hæstv. forseta að stýra svo fundum að ekki sé hægt að taka mál á dagskrá og ég lýsi algjörri furðu á þessum vinnubrögðum. Hið eina sem kannski getur skýrt þetta er að það er verið að reyna að koma í veg fyrir umræður. Mér finnst það forkastanlegt og ég verð að segja að mér finnst að hæstv. forseti ætti að segja frá því hvers vegna mál eru ekki tekin á dagskrá í stað þess að halda þessu hér áfram, þessum leiksýningum. Mér finnst þetta ekki vera þjóðþinginu til sóma.

Ég vonast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hlusti á ræður þingmanna, og ekki einungis þingmanna — fólk í öllu samfélaginu furðar sig á því að svona sé komið fram, að menn komi í veg fyrir málefnalega umræðu í þjóðfélaginu og að menn reyni að koma í veg fyrir málefnaumræðu sem sjálf Ríkisendurskoðun (Forseti hringir.) hefur dregið fram í dagsljósið að þurfi umræðu og yfirferðar með.