133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:49]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég mótmæli því harkalega og harðlega að ég hafi ekki svarað neinu í minni ræðu. Meðal annars talar hv. þingmaður um að þetta sé ekkert annað en einkavæðing. Það er fáránlegt að halda slíku fram. Ef menn vilja leggja niður Ríkisútvarpið þá gera þeir það með einföldum meiri hluta núna á Alþingi.

Mér finnst þetta í rauninni lítilsvirðing við það hvernig fyrirkomulagið er hér á hinu háa Alþingi, þ.e. lítilsvirðing varðandi framgang löggjafans. Ef það er meiri hluti á Alþingi til að breyta Ríkisútvarpinu þá verður því breytt. Ef það er meiri hluti á Alþingi til þess að selja það þá verður það selt eða lagt niður.

Hins vegar er ekki meiri hluti á þingi til þess að einkavæða það. Það er ekki meiri hluti á Alþingi til þess að selja það eða leggja það niður. Það er hins vegar meiri hluti á Alþingi til þess að efla Ríkisútvarpið, til þess að styðja það og styrkja til að sinna sínu menningarhlutverki og til þess er leikurinn gerður með þessu frumvarpi.