133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:04]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að ég hef ekki misskilið mjög mikið en kannski var þetta örlítið nákvæmara orðalag, að þau mundu halda áfram. Ég verð að segja fyrir mína hönd og hugsanlega einhverra annarra að við áttuðum okkur á því að endanlegt bréf ætti eftir að koma. Þannig höfðum við skilið viðskilnaðinn síðast, að eitt bréf ætti eftir að koma sem kæmi ekki fyrr en þessu væri lokið.

Ég verð að vekja sérstaka athygli á því, frú forseti, að það er ákveðið hlutverk sem formaður hefur í nefnd. Ég verð að gera ráð fyrir því að meiri hlutinn hafi haft sömu möguleika og við í minni hlutanum á að lesa þessi gögn og draga ályktanir af fyrri umfjöllun um þau. Það kom fram á fundum nefndarinnar að formaður fór með erindi til menntamálaráðuneytisins varðandi þátt ESA í þessu sambandi og kom til baka með þau svör að þaðan væri ekkert nýtt að hafa. Þetta er algjörlega óskiljanlegt og ég verð að segja, frú forseti, að mér þóttu þessi orð hæstv. ráðherra á margan hátt ómakleg í garð formanns menntamálanefndar sem hefur (Forseti hringir.) sinnt málefnum ráðherrans af fullum dug í nokkur ár.