133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (ber af sér sakir):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntamálaráðherra sagði að ég hefði rógborið Pál Magnússon útvarpsstjóra, eða allt að því, ég hefði sagt að hann hafi farið með rangt mál. Það hef ég vissulega sagt. Hæstv. forseti. Ég hef ekki aðeins sagt það, ég hef fært rök fyrir fullyrðingum mínum þar að lútandi og ég stend við hvert orð sem ég hef sagt. Ég spyr, hæstv. forseti, hvort það geti talist ámælisvert að benda á rangfærslur í málflutningi embættismanna. Ég tel rangt og vítavert að kalla slíkt rógburð. Ég kem hreint til dyranna.

Hæstv. forseti. Ég vil upplýsa af þessu tilefni að útvarpsstjóri hefur svarað mér í rafrænu bréfi og hefur hann kosið að senda svar sitt til allra starfsmanna Ríkisútvarpsins. Í dag hef ég síðan sjálfur svarað útvarpsstjóra og óskað eftir því að hann sendi svar mitt einnig til allra starfsmanna Ríkisútvarpsins.