133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:14]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er munur að geta lagt mælistikur á ræður manna og komist að þeirri niðurstöðu að í minni ræðu hafi fátt nýtt verið en sjálfur hafi hv. þingmaður líklega flutt eina merkustu ræðu sem flutt hefur verið í þingsalnum og þó víðar væri leitað. (Gripið fram í.) Já, trúlega frá upphafi geri ég ráð fyrir ef við förum nákvæmt í þetta.

Það er auðvitað ágætt að hv. þingmenn séu ánægðir með ræður sínar. Ég verð hins vegar að hryggja hv. þingmann með því að ég reyni að forðast endurtekningar í umræðunni, og af því að það er til þingmál sem er ramminn og rökstuðningur fyrir stefnu Samfylkingarinnar í málinu sem hefur verið lagt fram og hv. þingmaður getur kynnt sér ýmist á vefnum eða í pappír, þá er óþarfi að fara nákvæmlega yfir það. Ég hélt að ég hefði komið því þokkalega frá mér, þó að það hafi kannski farið fram hjá hv. þingmanni, að ég telji að sjálfseignarstofnun væri það form sem hentaði Ríkisútvarpinu. Ég sagði jafnframt að skoða mætti málið örlítið víðar til þess að ná sátt um Ríkisútvarpið vegna þess að við höfum talið það mikilvægast en ekki það stríðsástand sem sölumenn Ríkisútvarpsins vilja skapa. Þar skilur á milli. Ég fór nokkuð yfir það að ég saknaði þess að vilji m.a. hæstv. menntamálaráðherra sem fram kom í ósk um „við viljum, við viljum“ upptalningunni hefði verið nálgast á þann hátt að ná sátt um leiðir til þess, sem við höfum margoft reynt að gera.

Ég verð þó að segja við hv. þingmann að ég eyddi örlitlum tíma ræðu minnar í það að fjalla einmitt um þann merka áhuga og hið merka skipulag varaformannsembættis Sjálfstæðisflokksins sem hv. þingmaður reynir stöðugt að að yfirfæra á aðra flokka en á því miður ekki við miðað við (Forseti hringir.) óskir hv. þingmanns.