133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:21]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fátt eitt nýtt kom fram í ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar áðan. Það var einmitt eitt nýtt sem kom fram. (Gripið fram í: Bara eitt?) Það var það sem hann nefndi sem sölumenn Ríkisútvarpsins. Hverjir skyldu vera yfirsölumenn Ríkisútvarpsins? Það skyldi þó ekki vera sú stjórnarandstaða sem talar hér í fjóra sólarhringa og á eftir að tala kannski annað eins um Ríkisútvarpið?

Ég hygg að stjórnarandstöðunni væri nær og rétt að fara að hlusta á rödd almennings, líta út fyrir þingsalina en grúfa sig ekki hér í pontu og halda sólarhringsvakt á þinginu. Það virðist eins og að þeir hv. þingmenn sem tala fyrir hönd stjórnarandstöðunnar hafi bæði eyrnahlífar og augnblöðkur og endurhljómi einmitt rödd sölumanna Ríkisútvarpsins.

Þegar við ræðum 1. gr. frumvarpsins hafa vinstri grænir gjarnan talað um að við séum að fara í einkavæðingu RÚV. En nú sýnist mér að sölumenn RÚV sem eru þá jafnvel aðaltalsmenn Samfylkingarinnar tali hvað mest hér í dag og þessa daga.

Þess vegna væri ágætt að heyra frá hv. þingmanni: Hvernig hyggjast þessir ágætu sölumenn RÚV standa að málum, sölumenn Samfylkingarinnar? Hvernig ætla þeir að standa að málum? Tala hér fleiri daga og gera almenningi betur grein fyrir stöðu mála? Hver er kjarni málsins varðandi þetta?

Hv. þingmaður sem talaði upp undir sex tíma í málinu gat í dag sagt kjarna sinn á mínútu. Þannig vil ég heyra söguna.