133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:24]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja það, því miður, að hv. þingmaður náði ekki sömu hæðum og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson í hinni stórmerku ræðu sem hann flutti í gær. Málefnalega var þetta að vísu trúlega býsna djúpt og ég verð að biðja hv. þingmann afsökunar ef ég hef ekki náð fyllri dýpt í málið en kjarni málsins er sá, sem ég hélt að ég væri búinn að nefna nokkrum sinnum, að það þarf að koma í veg fyrir að sölumenn RÚV ráði ferlinu, skemmi RÚV og einkavæði það.

Einkavæðing RÚV — það er verið að vitna í alls konar hv. þingmenn VG í þeim efnum. Hv. þingmaður hefur greinilega ekki fylgst nægilega vel með vegna þess að ég las hér orðrétt frétt eftir hv. þm. Pétri H. Blöndal sem sagði að stuðningur hans við þetta frumvarp væri vegna þess að með því væri stigið skref í átt að einkavæðingu RÚV. Málið er ekki flókið að þessu leytinu til.

Við erum að reyna að vekja athygli m.a. hv. stjórnarþingmanna á því hvaða hætta er á ferðum. Ef hv. þingmenn eru ekki á því að vilja fara sömu leið og leiðtogi sölumanna RÚV, hv. þm. Pétur H. Blöndal, eiga menn að bregðast við og segja það.

En varðandi hin merku ummæli hv. þingmanns um rödd almennings og sólarhringsvaktir verður að upplýsa hv. þingmann um það, þó að við vildum gjarnan koma örlítið meira að stjórn þingsins, stjórnarandstöðuþingmenn, að virðulegur forseti stýrir og stjórnar og ákveður hvort hér eru keyrðir heilir sólarhringar eða hálfir eða rúmlega það. Við höfum lítið um það að segja.

Frú forseti. Þar sem ég á bara örfáar sekúndur eftir af þessu andsvari mun ég nota seinna andsvar mitt til að fjalla um rödd almennings og upplýsa hv. þingmann örlítið um hann.