133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:29]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið fróðlegt að sitja hér í salnum og hlýða á ræðumenn í umræðu um Ríkisútvarpið ohf. Var síðasti ræðumaður þar ekki undanskilinn og tek ég undir flest af því sem hann lét frá sér fara. Það vakti athygli mína í síðustu andsvörum að hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Ólafsson, taldi það mjög til vansa að stjórnarandstaðan, sem er í reynd brjóstvörn Alþingis og brjóstvörn lýðræðisins þegar um yfirgang ríkisstjórnar er að ræða, hefði staðið hér í u.þ.b. fjóra daga eða svo og reynt að koma í veg fyrir þau ósköp sem ríkisstjórnin vill koma í gegn. Ríkisstjórnin sjálf hefur unnið að málinu í þrjú ár þannig að í því samhengi eru fjórir sólarhringar ekki mjög langur tími. Það sem er ekki síður athyglisvert í þessari þriggja ára vinnu er að undantekningarlaust hafa fyrri hugmyndir ríkisstjórnarinnar, hæstv. menntamálaráðherra og meiri hlutans á þingi tekið verulegum breytingum í sumarfríum og jólafríum hverju sinni. Við eigum ekki von á öðru nú en að hið sama sé upp teningnum, að sú umræða sem hér fer fram muni á síðari stigum leiða til þess að enn frekari breytingar verði gerðar á þessu máli.

Það hefur einnig vakið athygli mína í þessari umræðu — og ég veit ekki, virðulegi forseti, hvort það tengist því athyglisverða ástandi sem er í þinghúsinu nú um stundir — að ekkert kemst á dagskrá nema mál Ríkisútvarpsins en þingmenn stjórnarliðsins koma reglulega í andsvör og gefa ræðum stjórnarandstæðinga einkunnir. Oftar en ekki finnst þeim lítið til þeirra koma ellegar að fátt eitt nýtt beri við. Í því ljósi hlýddi ég af mikilli athygli á ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar hér í gær (Gripið fram í: Þar kom ýmislegt nýtt fram.) sem ég held að hafi staðið í 30 mínútur eða svo, hún hafði um tíma nokkurt skemmtanagildi en var eftir það kannski meira og minna málþóf. Þess vegna þóttu mér þeir gera litlar kröfur til sjálfra sín í ljósi þeirrar miklu áherslu sem þeir leggja á að stjórnarandstaðan komi upp með nýjan sannleik í hvert sinn sem stjórnarandstöðuþingmaður tekur til máls.

Á sama hátt hlýddi ég af mikilli athygli á hæstv. menntamálaráðherra sem ekki er viðstödd þá umræðu sem nú fer fram. Ég held að það væri við hæfi að hæstv. ráðherra væri viðstödd þessa umræðu því að þegar á líður ræðu mína, virðulegi forseti, mun ég beina til hennar fyrirspurnum. Mér þætti vænt um að hún sæi sér fært að verða við beiðni minni og vera a.m.k. við þegar nær dregur lokum þannig að mér þætti vænt um að hæstv. ráðherra yrði gert viðvart um það að einhverjar spurningar muni vakna þegar á líður.

Eins og ég nefndi áðan hefur hæstv. forseti þingsins tekið þá ákvörðun að ekkert skuli rætt annað en þetta tiltekna mál og einnig að möguleikar þingmanna til að forvitnast um hvaðeina eða bera fram fyrirspurnir, sem er réttur okkar, séu ekki til staðar í augnablikinu. Hugsanlega kunna að verða einhverjar breytingar á morgun hvað varðar umræður utan dagskrár en að meginstefnu til þarf stjórnarandstaðan að standa hér í brjóstvörn fyrir þingið andspænis yfirgangi ríkisstjórnarinnar.

Ég hef reyndar ekki áður tekið til máls í umræðum um Ríkisútvarpið og breytir þá engu hvort um Ríkisútvarpið undir merkjum sameignarfélags hafi verið að ræða, Ríkisútvarpið undir merkjum hlutafélags eða merkjum ohf. Ég hef ekki komið að þessum umræðum áður og það má kannski segja að á meðan ríkisstjórnin hefur verið svona óviss um hvaða leið sé best í þessu tiltekna máli hefur verið ágætt að menn hafi ekki tæmt sig í umræðunni enda hefur stefna ríkisstjórnarinnar tekið stökkbreytingum á þeim þremur árum sem tilraunir hafa verið gerðar til að setja lög um Ríkisútvarpið. Þetta þykir mér athyglisvert.

Af því að hv. formaður menntamálanefndar situr í salnum þætti mér ágætt ef hann sæi sér fært þegar þessari ræðu er lokið að svara því á hvaða tímapunkti í þessu þriggja ára ferli undir merki sameignarfélags — reyndar kom síðan fram að það væri erfitt að vera einn um að eiga sameignarfélag — eða undir merki hlutafélags eða opinbers hlutafélags hann hafi sannfærst endanlega um að nú væru menn á réttri leið með það frumvarp sem nú liggur fyrir eða þá hugmynd sem hefur verið að gerjast þennan tíma. Það hefur ekki breytt neinu undir hvaða formerkjum þetta mál hefur komið til þings, hv. stjórnarliðar hafa alltaf verið jafnsannfærðir um ágæti þess. Þeir koma enn á ný sannfærðir þó að málið hafi tekið stökkbreytingu. Þó að hugmyndafræðinni sé snúið á haus eru hv. stjórnarliðar alltaf jafnsannfærðir um að þeir séu á réttri braut.

Ekki bara þetta, heldur koma stjórnarliðar síðan bísperrtir í ræðustól og spyrja stjórnarandstöðuna hver hennar stefna sé í þessum tilteknu málum eftir að þeir hafa mætt árlega með nýja stefnu í málefnum Ríkisútvarpsins. (SKK: Svo þegar maður svarar því …) (Gripið fram í.) Það hefur verið að eigin frumkvæði sem hv. þingmaður hefur farið yfir stefnu stjórnarandstöðunnar. Það er mjög athyglisvert að þessir hinir sömu hv. stjórnarliðar skuli kalla eftir stefnu eftir að þeir hafa núna árlega breytt um kúrs, og reyndar ekki bara árlega heldur í hverju einasta fríi, í hverju sumarleyfi eða jólaleyfi hafa alltaf átt sér stað breytingar. Við sem lítum svo á að við séum brjóstvörn þingsins í þessu máli gerum okkur enn á ný vonir um að um frekari breytingar verði að ræða.

Í þessari umræðu hafa stjórnarliðar verið nokkuð hvatvísir í þeim efnum að lýsa því yfir að stjórnarandstaðan sé á einhvern hátt sundruð í málinu ellegar hafi fleiri stefnur en eina. Það þarf ekki í sjálfu sér að koma á óvart að stjórnarandstaðan hafi mismunandi áherslur enda skipa þingmenn sér í flokka og lið eftir mismunandi hugmyndafræði og það er ekkert óeðlilegt að út úr því komi mismunandi áherslur. En þeir stjórnarliðar sem hafa talað í þessu máli, og m.a. hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem skipar bekk stjórnarliða, eru ekki einu sinni samstiga í málinu. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur tekið til máls í þessari umræðu og á honum er ekki annað að skilja en að hann muni ekki verða í fylkingarbrjósti þegar kemur að því að greiða þessu máli jáyrði sitt komi málið einhvern tíma til atkvæða þannig að stjórnarliðar eru nú ekki sameinaðri en þetta.

Þrátt fyrir þennan veruleika og þrátt fyrir þessar staðreyndir mæta þeir í andsvör og ræður bísperrtir, spyrja menn út úr hinu og þessu og fjölyrða um að staðan hjá þeim sé ekki sem skyldi. Þetta hefur verið mjög athyglisvert og það sem er kannski ekki síður athyglisvert er að í sögu þessara þriggja ára, í breytingasögu þessara þriggja ára hvað varðar frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, virðist sem það hafi ekki verið fyrr en frægt fréttastjóramál kom hér upp fyrir tæpum tveimur árum sem annar stjórnarflokkurinn fékk algjörlega nýja sýn, þ.e. Framsóknarflokkurinn fékk algjörlega nýja sýn á það hvernig best væri að reka ríkisútvarp eftir að hafa ályktað ár eftir ár. Tónar úr grasrótinni sem er sennilega að verða einhver þekktasta grasrót sem til er hafa lengi verið í þá veru að halda beri Ríkisútvarpinu sem mest í núverandi formi. En í kjölfar athyglisverðra hluta árið 2005 sem komu upp í Ríkisútvarpinu kúventi Framsóknarflokkurinn á flokksþingi sínu og fékk nýja sýn á þetta tiltekna mál. Má segja sem svo að Framsóknarflokkurinn eigi í reynd algjörlega eftir að skýra sinn hlut í þessu máli. Ég vænti þess að hann geri það. Ég veit að menn hafa auglýst talsvert eftir formanni Framsóknarflokksins, talið mikilvægt að hann kæmi til umræðunnar, útskýrði ferðalag síns flokks og upplýsti okkur um það á hvaða ferðalagi sá flokkur er í þessu tiltekna máli. Það hefur einnig verið dregið hér fram að ungliðadeild flokksins hefur ályktað um það að haldið skuli í Ríkisútvarpið með öllum tiltækum ráðum. Þótt ekki sé nema farið yfir þessa stuttu sögu finnst mér stjórnarliðar fara heldur frjálslega með hana og staðreyndir þegar þeir reyna að láta líta svo út sem stjórnarandstaðan sé sundruð í þessu tiltekna máli.

Stjórnarandstaðan er einhuga í málinu. Stjórnarandstaðan mun beita sér fyrir því að þetta frumvarp verði ekki að lögum í þeirri mynd sem það birtist hér. Síðan mun koma í ljós hvort brjóstvörn Alþingis, stjórnarandstöðunni, takist að hrinda árás ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

Ég hef örlítið komið inn á söguna og þá athyglisverðu umræðu sem hér hefur farið fram og verið haldið úti í nokkra daga. Þar sem ég hef reynt að átta mig eins vel á efninu og nokkur er kostur hef ég fengið enn skýrari mynd á þetta. Ég hef lengi velt fyrir mér í þessu þriggja ára ferli hver vandi Ríkisútvarpsins sé í dag. Hvaða vanda er verið að leysa með þeim hugmyndum sem hér eru settar fram? Því hlýddi ég af mikilli athygli á ræðu hæstv. menntamálaráðherra því að ég taldi víst að þar kæmu fram svör við þeim spurningum sem á mig hafa leitað undir þessari umræðu. Það komu svör en menn geta deilt um innihald þeirra eða gæði. Hæstv. menntamálaráðherra sagði að það þyrfti að nútímavæða stofnunina. Þá taldi ég víst að það orð hefði eitthvert innihald, greindi okkur frá einhverri hugmyndafræði, einhverri sýn. En það var ekki. Það var ekkert í ræðunni sem gaf okkur mynd eða sýn á það á hvaða ferðalagi ríkisstjórnin er í þessu máli undir hugmyndafræðinni nútímavæðing. Hæstv. menntamálaráðherra sagði — það var enn frekara innlegg í málið til að reyna að upplýsa það — að stjórnarandstaðan væri úr takti við þjóðfélagið (Gripið fram í: Og tímann.) og tímann. Þá var það útskýrt einhvern veginn á þann veg að það væri enginn að tala um málið. Því væri stjórnarandstaðan úr takti við samfélagið.

Þá rifjaðist upp fyrir mér þar sem ég sat í þingsalnum og beið eftir stóra sannleikanum, eftir því að verða sannfærður, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hvað það væri í þessu sem við værum ekki í takt með. Jú, það var umræðan síðan á mánudag um að við værum ekki í takt við samfélagið.

Þá vaknaði að sjálfsögðu spurningin: Hvað mundi maður segja ef maður væri búinn að ólmast í málinu í þrjú ár og enginn talaði um það? Ekki nokkur einasti maður, að sögn hæstv. menntamálaráðherra. Maður er búinn að ólmast í málinu í þrjú ár. Það er nánast búið að setja hér, eins og það hefur verið kallað á hinu háa Alþingi, hálfgerð „herlög“ til að koma málinu í gegn. Hæstv. menntamálaráðherra kemur svo upp og segir: Það er enginn að tala um málið, ekki nokkur einasti maður.

Um hvað snýst þetta þá? Hver er vandinn? Hver er kjarninn í þessu máli? Kannski er ekkert óeðlilegt úr því að maður fékk engin svör í ræðu hæstv. menntamálaráðherra önnur en að við værum að einhverju leyti úr takti að maður leitaði svara þá í frumvarpinu sjálfu, hvort þar væri eitthvað að finna úr því að það var ekki útskýrt.

Menn verða enn meira undrandi við lestur og skoðun á þessu frumvarpi. Ég ætla að leyfa mér að byrja á því að beina einni spurningu til hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, formanns menntamálanefndar, sem varðar 1. gr. þessa frumvarps. Þar er tekið fram að Ríkisútvarpinu ohf. sé óheimilt að eiga „hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað eða rekur útvarpsstöð“, í 1. gr. er tekin fram þessi neikvæða skilgreining.

Þýðir þetta, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, að Ríkisútvarpinu verði heimilt að kaupa í öllum öðrum félögum, að Ríkisútvarpinu, í eigu ríkisins, verði heimilt að kaupa í öllum öðrum félögum en félögum sem gefa út dagblað eða reka útvarpsstöð? Þetta finnst mér afar mikilvægt að vita vegna þess að það hlýtur að skjóta skökku við að hv. þingmaður sem gárungar, meira að segja hér á þingi, hafa leyft sér að kalla fulltrúa í sölunefnd ríkiseigna, vill heimila Ríkisútvarpinu að kaupa í öllum félögum nema þeim sem eiga hlut í fyrirtæki sem gefa út dagblað eða reka útvarpsstöð.

Ég spyr einnig: Er það í anda og er það í takt við hugmyndafræði hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að Ríkisútvarpið kaupi í mörgum öðrum félögum? Er það í raun og veru það sem verið er að tala um? Eða hvers vegna er þetta orðað svona? Hvers vegna er þetta ekki orðað á þann veg að (Gripið fram í: Ég skal svara því …) Ríkisútvarpinu sé ekki heimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki? (Gripið fram í: Ég skal svara.) Hv. þingmaður kallar hér fram í að hann muni svara þessari spurningu og ég læt þar með staðar numið við frekari fyrirspurnir um 1. gr.

Ég fer þá beint í 3. gr., sem er kannski þegar öllu er á botninn hvolft lykilgreinin í þessu frumvarpi. Þar birtist hugmyndafræðin, hugsunin og kjarninn í þessu tiltekna máli sem hæstv. menntamálaráðherra hefur lýst svo, eins og ég skráði niður eftir henni, að „Ríkisútvarpið verði rekið eins og fyrirtæki“, þ.e. að ríkið sem eigandi Ríkisútvarpsins ætli að reka það eins og fyrirtæki. Ekki reka það eins og stofnun, heldur reka það eins og fyrirtæki með þeim markmiðum væntanlega sem fyrirtæki hafa, þó með tilteknum kvöðum sem reynt er að gera grein fyrir í 3. gr. og svokölluðum þjónustusamningi sem ég held að megi fullyrða að leggi ekki miklu meiri kvaðir á Ríkisútvarpið en koma fram í 3. gr. Ef svo er þætti mér vænt um heyra það.

Hver er þá hugmyndafræðin á bak við nauðsyn þess að taka Ríkisútvarpið sem stofnun sem hefur verið rekin í 77 ár, sem yfir 70% voru ýmist hlutlaus eða ánægð með í margræddri skoðanakönnun um Ríkisútvarpið og breyta henni? 70% í þessari frægu skoðanakönnun voru ýmist ánægð eða hlutlaus með Ríkisútvarpið og ef það er nauðsyn að breyta því hlýtur maður að kalla eftir hugmyndafræðinni á bak við þær breytingar.

Það sem hér er um að ræða er að verið er að breyta stofnun sem þjóðinni þykir vænt um og það hefur birst m.a. í þingsölum í því að menn hafa viljað standa vörð um hana. Sumir í okkar röðum hafa viljað kalla hana gimstein, a.m.k. eru geysileg verðmæti fólgin í þessari stofnun, hvort heldur í mannauði eða þeim hugverkum og öðru slíku sem þar er vistað og geymt, og þjóðin vill standa vörð um þá stofnun sem Ríkisútvarpið er. En nú á að breyta þessari stofnun í fyrirtæki og reka eins og fyrirtæki.

Þá hljótum við að spyrja í anda hugmyndafræði sjálfstæðismanna: Ef á að reka þetta eins og fyrirtæki hljóta menn að reka þetta á jafnréttisgrunni, að sjálfsögðu. Þá hljóta menn að reka þetta þannig að ríkisfyrirtæki starfi á sama grunni og aðrir, þegar ég er búinn að fara yfir kvaðirnar sem eru í lágmarki. Ríkisfyrirtæki hlýtur þá að starfa á sama grunni og önnur fyrirtæki á þessum vettvangi og undir sömu reglum, ekki satt? Nei, það er ákveðið að gera það ekki.

Ríkisútvarpinu ohf. er í reynd ætlað að starfa þannig að það muni ekki heyra undir samkeppnislög. Meginþáttur í rekstri Ríkisútvarpsins ohf. mun ekki heyra undir samkeppnislög. Með öðrum orðum mun Ríkisútvarpið, sem Sjálfstæðisflokkurinn gengur hér hart fram að einkavæða, ekki starfa undir samkeppnislögum að því er varðar almannaþjónustuna. Almannaþjónustan er skilgreind svo vítt að nánast allt fellur undir hana. Hún mun ekki heyra undir samkeppnislögin en hún mun fá 2 milljarða í farareyri. Hún mun fá 2 milljarða í farareyri í formi nefskatts frá almenningi áður en hún hefur innreið sína á þennan markað. Áður en hún hefur samkeppni við þau fyrirtæki sem fyrir eru mun hún fá 2 milljarða í farareyri frá almenningi í þessu landi og starfsemi hennar verður utan samkeppnislaga.

Á þessum grunni á þetta ríkisfyrirtæki að starfa. Ég hlýt að spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson — það var kannski, virðulegi forseti, þegar hér var komið sögu sem ég hafði hug á því að leggja spurningar fyrir hæstv. menntamálaráðherra.

(Forseti (SAÞ): Forseti hefur séð til þess að boðum verði komið til hæstv. menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Það er von á henni í hús, vænti ég.)

Ég þakka fyrir þetta.

Ég var að fara hér yfir það að nú ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að fara að stofna fyrirtæki sem mun starfa á samkeppnismarkaði utan samkeppnisréttar með 2 milljarða í farareyri, í forgjöf, áður en það hefur samkeppni við aðra sem eru á vettvangi. Að vísu, svo að allrar sanngirni sé gætt, er hluti starfseminnar undanþeginn, þ.e. þeim er óheimilt að leigja út spólur með efni. Sá þáttur mun heyra undir samkeppnislögin. Þeim er óheimilt að selja gamla CD-diska eða eitthvað þess háttar eða opna plötubúð. Geri þeir það heyrir það undir samkeppnislögin. Svo má ekki gleyma því þriðja sem er kannski lykilatriðið, algert lykilatriði, þeim er óheimilt að selja hringitóna. Þessir þættir, hinir stórkostlegu afgerandi þættir í starfsemi Ríkisútvarpsins, þ.e. vídeóleiga, sala á CD-diskum og sala á hringitónum, munu heyra undir samkeppnislög.

Ég held að það sé nokkurn veginn upptalið sem undir samkeppnislögin heyrir. Menn geta rétt ímyndað sér hvernig öðrum fyrirtækjum kemur til með að líða þegar Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að ríkisvæða og einkavæða, þetta er hvort tveggja, það er verið að einkavæða fyrirtækið í þeim skilningi að það heyrir undir einkaréttarlegar reglur en ríkið á það. Ríkið kemur því undan samkeppnislögum, lætur það hafa 2 milljarða í forgjöf og svo skal keppt.

Það hlýtur einhver hv. þingmaður stjórnarliðanna að þurfa að útskýra fyrir okkur á hvaða ferðalagi stjórnarmeirihlutinn er í þessu máli. Ég get alveg skilið að þau fyrirtæki sem eru fyrir á markaði og rekstur þeirra hefur verið svona upp og ofan, og breytir litlu hvort um prentmiðla eða ljósvakamiðla er að ræða, skuli kvarta undan því að fyrirhuguð starfsemi Ríkisútvarpsins í þessu formi skuli vera að fara af stað. Ekki bara það, heldur er hugmyndin einnig sú að skera burt af fyrirtækinu eða setja það í þann búning að það verði jafnkraftmikið og hlutafélög á einkamarkaði eru en njóta síðan sérstakrar lagaverndar til að geta keppt án þess að keppa á jafnréttisgrunni.

Menn hljóta að þurfa að útskýra fyrir okkur á hvaða ferðalagi þeir eru þegar þeir stíga fram með þessar hugmyndir. Eru hugmyndir frjálshyggjumannanna í Sjálfstæðisflokknum að reka ríkið í samkeppni á fjölmiðlamarkaðnum með fyrirtæki sem er í þessari stöðu?

Er þetta hugmyndafræðin? Hvað gengur mönnum til? Ég skil vel að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson horfi í gaupnir sér. (Gripið fram í: Ég?) Ég skil það ósköp vel. En er þetta virkilega svona, er þetta grunnurinn í hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins eða er eitthvað annað sem býr að baki? (Gripið fram í: … búa til sölu.) Það er með hreinum ólíkindum hvernig þessi hugsun birtist okkur.

Ég leyfi mér að fullyrða að félag sem er í samkeppni á markaði, sem sækir sér auglýsingar, er í fínum málum þegar það ætlar að ná sér í vinsælt efni eða búa til gott efni er heppið að vera vistað með 2 milljarða áður en það leggur í samkeppnina. Menn eru bara í fínum málum. Mér finnst þessi þáttur algjörlega óútskýrður af hálfu stjórnarliða í þessari umræðu.

Hér hefur stjórnarandstaðan farið mjög vandlega yfir menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins og þá þætti. Ég tek heils hugar undir það en þessi þáttur er að búa til hálfgert tígrisdýr, ríkistígrisdýr, sem á að keppa á markaði án þess að um það eigi að gilda þær reglur sem aðrir þurfa að fara eftir.

Það er í þessu sem það birtist sem menn hafa talað um, að hér sé hvort tveggja á ferðinni, ríkisvæðing og einkavæðing. Ég skil vel þessa frasakenndu ræðu hæstv. menntamálaráðherra þar sem meginröksemd hennar fyrir þessum breytingum er nútímavæðing. Innihaldslaust. Nútímavæðing, stjórnarandstaðan ekki í takt við samfélagið, enginn að tala um málið. Þó að hæstv. ráðherra sé búin að ólmast í málinu í þrjú ár upplýsti hún sjálf að enginn væri að tala um málið, enginn hefði áhuga á því en það er í lagi að setja herlög á þingið. Enginn að tala um málið, búin að ólmast í því í þrjú ár.

Þetta er afar kúnstugt og mér finnst í þessari löngu umræðu við hljóta að eiga rétt á því og gera kröfu til þess að hæstv. menntamálaráðherra útskýri tilganginn með þessu öllu saman. Hann hefur ekki almennilega komið fram.

Ég ætla að fara aðeins betur yfir það sem ég hef sagt um þessa víðfeðmu skýringu á almannaþjónustu. Ég hef leyft mér að kalla það í hálfkæringi, sem þó nær því vel, að einungis vídeóleiga, plötusala og hringitónar séu sett undir samkeppnislög. Ég ætla að fara hér yfir 3. gr. lið fyrir lið, leyfa mér að lesa upp þessa 13 töluliði, til þess að þeir sem á hlýða átti sig á því hvað það er sem ekki heyrir undir samkeppnislögin, hvar þetta nýja tígrisdýr ríkisins getur leyft sér að keppa án þess að heyra undir samkeppnislögin. Hefst nú lesturinn, með leyfi forseta:

„1. Að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.“ — Þetta fellur undir almannaþjónustu.

„2. Að senda út til alls landsins og næstu miða a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring.“ — Með öðrum orðum stendur ekkert í veginum fyrir því að þær verði fleiri, hljóðvarpsrásirnar eða sjónvarpsrásirnar. Í dag eru reyndar a.m.k. tvær hljóðvarpsrásir.

„Enn fremur að birta valda hluta efnis síns, breytta eða óbreytta, ásamt öðru þjónustuefni í breyttu eða óbreyttu formi með öðrum miðlum, þ.m.t. að gera efni aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að verkinu á þeim stað og á þeirri stundu er hann sjálfur kýs.“ — Enn erum við stödd í almannaþjónustunni.

„3. Að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar. Efnið skal fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni.

4. Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.

5. Að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.“

Sjötti liður er ekki síður athyglisverður:

„6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.“ — Að flytja fjölbreytt skemmtiefni, sem sagt að keppa um innkaup á efni, ná sér í skemmtiefni í hvaða formi sem það er, hvort sem það eru íþróttir, sápuóperur, bíómyndir eða hvaðeina, þetta heyrir undir almannaþjónustuna. Menn geta keppt um þetta án þess að um það gildi nokkrar reglur. Menn hafa hvort tveggja, nesti og nýja skó áður en lagt er í hann upp á 2 milljarða. Þessu nýja ríkisfyrirtæki eru settar svona gríðarlegar hömlur. Þetta er nefnilega innan almannaþjónustunnar. Af því að það er innan almannaþjónustunnar að kaupa skemmtiefni er talið rétt að það heyri ekki undir samkeppnisreglur.

Virðulegi forseti. Af þeim sex liðum sem ég hef farið yfir hefðu menn kannski haldið að það væri nokkuð víðtækt og breitt svið sem Ríkisútvarpið hið nýja, ohf. væntanlega, getur starfað á án þess að þurfa að fara að sömu reglum og aðrir, en hér eru einir sjö liðir í viðbót sem ég tel rétt að fara yfir.

„7. Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.

8. Að flytja efni á sviði lista, vísinda, sögu, íþrótta og annars tómstundastarfs.“ — Það verður fróðlegt að sjá, ef af verður, Ríkisútvarpið ohf. berjast um á hæl og hnakka við aðrar stöðvar um Evrópu- eða heimsmeistarakeppni í knattspyrnu, Ólympíuleika og annað slíkt. Þá getur verið þægilegt að vera með 2 milljarða í heimanmund þegar þessi samkeppni hefst.

„9. Að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, þar á meðal að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa.

10. Að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og útvarps utan höfuðborgarsvæðisins.

11. Að halda uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu á sviði útvarps.

12. Að eiga eða leigja, sem og að reka, hvers konar búnað og eignir, þar á meðal tæknibúnað og fasteignir sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi félagsins.

13. Að varðveita til frambúðar frumflutt efni, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.“

Þetta eru þessir 13 liðir og að sjálfsögðu eru meðal þeirra liðir sem virkilega er hægt að skilgreina sem part af því að reka almannaþjónustu. En meðan þessi þáttur er skilgreindur svona vítt, meðan það á að straumlínulaga fyrirtækið eins og að er stefnt, að senda fyrirtæki í ríkiseigu, straumlínulagaða, og án efa — ég leyfi mér að segja það — fækka starfsfólki, án nokkurs efa því að ella verður fyrirtækið ekki straumlínulagað, hefur það forskot. Það er nokkuð víst. Að ríkið skuli hafa þá hugmynd að stofna ríkisfyrirtæki sem hefur styrk og kraft hlutafélags en njóti verndar ríkisstofnunar er afar athyglisvert og mundu sumir jafnvel kalla þetta bastarð. Það þarf kannski ekki að koma á óvart eftir þriggja ára fæðingu þar sem barnið hefur tekið breytingum í öllum fríum, sumarleyfum og jólaleyfum, síðustu þrjú árin.

Á hverju ári kemur þessi hugmynd fram undir nýjum formerkjum. Það er sf., hf. og ohf., og hv. stjórnarliðar spyrja svo um stefnu stjórnarandstöðunnar án þess að blikna og án þess að skammast sín. Í hvert sinn, á hverju ári, eru þeir jafnsannfærðir og fyrr um að þeir séu á réttri leið. Aldrei efi hjá neinum ef undan er skilinn hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.)

Ég lít svo á að allir þingmenn séu það en í þessu máli hefur það verið hlutverk stjórnarandstöðunnar að tala stjórnarliðið til. Það má segja sem svo að það hafi tekist í tvígang og nú er spurning hvort fullreynt verði í þriðja sinn eða hvort við þurfum að taka eina umferð á þessu til viðbótar.

Ég hef verið að reyna að rýna í 4. gr. í þessu frumvarpi. Við það hefur kviknað ein spurning sem mér þætti vænt um að hv. formaður menntamálanefndar svaraði. Eins og ég sagði, virðulegi forseti, voru hér nokkrar spurningar sem ég hafði áhuga á að beina til hæstv. menntamálaráðherra sökum þess að henni tókst ekki að sannfæra stjórnarandstöðu um réttmæti frumvarpsins í ræðu sem hún flutti fyrr í dag. Því reyni ég að bera upp spurningar sem hugsanlega gætu breytt afstöðu manna þegar svar liggur fyrir.

En mig langaði að spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, í ljósi 4. gr. og einnig sem tengist lið sem ég las upp áðan: Er eitthvað því til fyrirstöðu að Ríkisútvarpið ohf., verði það einhverju sinni að lögum, stofni til nýrra sjónvarpsrása, taki til að mynda upp á því að hafa íþróttarás í samkeppni við Sýn sem gæti vel komið til álita og kannski freistandi þegar maður hefur 2 milljarða í heimanmund til að keppa við einkafyrirtæki? Er það hugsanlegt? Væri það t.d. hluti af almannaþjónustu að opna íþróttarás? Fellur það innan skilgreiningarinnar á almannaþjónustunni? Þá er ég að tala um í 3. gr. sbr. 4. gr. Er eitthvað sem kemur í veg fyrir þetta? Þá er hægt að taka einhvern aur af heimanmundinum til að nota í þágu þeirrar rásar. Eins og hér hefur komið fram er áætlað að nefskattur til Ríkisútvarpsins ohf. gæti orðið u.þ.b. 2,2 milljarðar.

Það er fínn heimanmundur þegar maður er að hefja samkeppni við einkafélög og það er athyglisverð hugmyndafræði, öllu heldur ný hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur oft og tíðum gert sig út fyrir, a.m.k. á hátíðisdögum, að tala fyrir frelsi einstaklingsins og þess háttar. Hér er hins vegar verið að setja frelsi einstaklingsins miklar skorður.

Kannski er mikið til í þeim orðum sem ágætur vinur minn sagði við mig um daginn, kannski er Sjálfstæðisflokkurinn ekkert annað en kommúnistaflokkur með flott nafn. Kannski er hugmyndafræðin fyrst og fremst sú að „það er fyrir mig og okkur og að koma verðmætunum þangað sem er okkur þóknanlegt“. Kannski er þetta í reynd hugmyndafræðin. Hvað sem menn segja í þessari umræðu er þetta skref til einkavæðingar, skref á leið til sölu.

Af hverju halda menn að það sé verið að straumlínulaga Ríkisútvarpið? Það er til að gera það söluvænlegra síðar meir ef meiri hluti verður fyrir því í þinginu. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur margoft sagt að hann vilji selja Ríkisútvarpið. Sennilega hefði verið miklu heiðarlegra og eðlilegra að koma fram með slíkt frumvarp en að búa til ríkisfyrirtæki með forréttindi á markaði undir meintum hugmyndum um almannaþjónustu sem er svo víðtæk að það er varla nokkuð annað en sala hringitóna sem er undanþegin almannaþjónustunni. Það telst ekki til almannaþjónustu að selja hringitóna. Það fellur undir samkeppnislögin svo að öllu sé nú rétt og haganlega til skila haldið. Ég veit ekki reyndar, ég skal játa það, ég þekki ekki umfang eða stærð þess þáttar í starfsemi Ríkisútvarpsins og veit ekki hversu miklar tekjur hafa fengist af sölu hringitóna ef einhverjar. En ég get ekki ímyndað mér að hún sé kjarnastarfsemi. Vel má vera að ég hafi rangt fyrir mér í þessum efnum og það leiðréttist þá væntanlega í umræðunni. Þetta er allt saman mjög athyglisvert.

Síðan eru einhver ákvæði til að róta ryki yfir ruglið, t.d. er aumingja ríkisendurskoðanda ætlað að athuga hvort verið sé að selja hringitóna undir formerkjum almannaþjónustu og byggja þá upp með nefskattsaurum eða hvort uppbyggingin komi af auglýsingatekjum. Honum er ætlað að líta til þess hvort þar sé verið að færa einhverja reikninga á milli. Ég svo sem bara þekki það ekki.

Ég hitti ríkisendurskoðanda í morgun og spurði hann ekkert út í sérþekkingu hans á rekstri á ríkisútvarpi eða almannaþjónustu eða hvort hann hefði upplýsingar um það hvar mörkin lægju að almannaþjónustu í ljósi þeirrar víðfeðmu skilgreiningar sem hér er. Ég held að ég geti sagt honum það, ég þarf sennilega að hitta hann á morgun og get jafnvel upplýst hann um það að hringitónar eru fyrir utan almannaþjónustuna. Ég get þá lagt honum lið í þessari baráttu sem sjálfsagt mun verða honum að einhverju leyti erfið vegna þess að það liggur í augum uppi að hlutverk ríkisendurskoðanda í þessu máli verður mjög víðfeðmt og mikið. Hann þarf kannski að úrskurða um hvort starfsemi Ríkisútvarpsins heyri til almannaþjónustunnar eða ekki.

Af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson sem hefur verið eitilharður talsmaður Vinstri grænna í þessu máli er kominn í salinn vil ég segja að ég var í þessum töluðu orðum að fara yfir almannaþjónustuhlutverkið. Eftir yfirlegu finn ég ekkert annað en hringitónana og þess háttar sem er undanskilið almannaþjónustunni. Ég veit að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson mun sjálfsagt upplýsa mig um fleiri þætti en ég finn ekki annað en að það eina sem gæti fallið undir samkeppnislög í þessu máli sé rekstur á vídeóleigu, plötubúð og sala hringitóna. Annað fellur undir almannaþjónustuna og fyrirtækið, þ.e. ríkisfyrirtækið, fer síðan í samkeppni við önnur fyrirtæki á þessum markaði að undirlagi manna sem kenna sig við hugmyndafræði um frelsi einstaklingsins með 2 milljarða í heimanmund þar sem það ætlar að keppa við einkaaðila á markaðnum.

Það getur vel verið að hv. þm. Ögmundur Jónasson geti útskýrt þetta, réttlætt það eða á einhvern hátt skýrt þetta út fyrir mér en ég er búinn að sitja í salnum og hlusta á umræður síðustu daga og verð að játa að ég hef ekki enn þá fengið viðhlítandi skýringar á því af hverju ríkið undir forustu Sjálfstæðisflokksins er að búa til eitthvert svona fyrirbæri sem er nánast vonlaust að keppa við. (Gripið fram í: Vegir … eru órannsakanlegir.) (Gripið fram í.)

Þetta er niðurstaða þriggja ára gerjunar á þeirri hugmyndafræði sem við höfum þurft að takast á við undanfarin ár. Hv. þm. Kjartan Ólafsson var svo alveg gáttaður á því, eftir að hafa unnið að þessari hugmynd í þrjú ár, að það tæki nokkra daga að ræða þetta. Í forundran kom hann hér og var alveg gáttaður á því að í fjóra daga hefðu menn verið að reyna að fá botn í það af hverju menn eru að gera þetta.

Menn gætu kannski velt fyrir sér í hverju vandinn felist. Hvað er svona skelfilegt við fjölmiðlamarkaðinn í dag? (Gripið fram í.) Akkúrat. Hvað er svona skelfilegt við fjölmiðlamarkaðinn í dag? Ég ætla að leyfa mér að segja, þó að ég hafi kannski ekki mestu þekkinguna á þessum markaði hér inni, að ég held að mér hafi aldrei staðið fleiri fjölmiðlar til boða en nú um stundir. Ég hef aldrei getað valið meira. Einu sinni var flokkur sjálfstæðismanna kenndur við valfrelsi, að menn gætu valið sjálfir. (Gripið fram í.) Það er það sem ég er að segja. Þegar menn búa til ríkisfyrirtæki sem verður fyrir utan lög og rétt og fær 2 milljarða í farareyri til að keppa við þá sem eru fyrir gæti það nefnilega gerst að valmöguleikar mínir yrðu færri. Það er það sem gæti gerst.

Þess vegna er ég að reyna að varpa upp spurningunni: Hver er vandinn? 70% af þjóðinni eru ýmist hlutlaus eða ánægð með Ríkisútvarpið, en hæstv. menntamálaráðherra telur algjörlega nauðsynlegt að nútímavæða það. Nútímavæðingin felst í því að búa til ríkisfyrirtæki með forréttindum á markaði. Hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins hér í salnum kinkar kolli. (Gripið fram í.)

Hv. þingmenn Vinstri grænna hafa líkt og þingmenn Samfylkingarinnar reynt að tala um fyrir stjórnarliðum núna í nokkra daga. Við munum án nokkurs vafa halda því áfram. Við erum ekki sannfærð um að ríkisendurskoðandi, með fullri virðingu fyrir honum, muni tryggja að ekki muni renna fé úr nefskattspottinum í starfsemi sem skilgreina má þannig að hún falli ekki undir almannaþjónustu eins og hugmyndafræðin er. Hann þyrfti nánast að vera með starfsmann uppi í Efstaleiti á hverjum degi til að fylgjast með því. Hann þyrfti að vera með sérstakan starfsmann sem væri þá búinn að skilgreina í þaula hvað felst í þessari víðfeðmu skilgreiningu á almannaþjónustunni.

Virðulegi forseti. Ég hef talað örlítið lengur en ég ætlaði mér í þessari umræðu. (Gripið fram í: Við fyrirgefum það.) Í frammíkalli lýsa menn því yfir að mér fyrirgefist það. Ég hafði hugsað mér að leggja nokkrar fyrirspurnir fyrir hæstv. menntamálaráðherra en hæstv. ráðherra sá sér ekki fært að …

(Forseti (RG): Forseti vill upplýsa að gerðar voru ráðstafanir til að láta hæstv. menntamálaráðherra vita af ósk þingmannsins. Það hefur ekki náðst til menntamálaráðherra, en það var upplýst að von væri á ráðherranum í húsið innan tíðar. Það hefur enn þá ekki gerst miðað við þær upplýsingar sem forseti hefur.)

Ég þakka kærlega fyrir tilraunir hæstv. forseta til að fá hæstv. menntamálaráðherra hingað til að vera viðstadda ræðu mína þar sem ég átti erindi við hæstv. ráðherra.

Eins og ég sagði áðan er ég búinn að fara yfir tiltekinn þátt þessa máls. Ég hef tekið undir með félögum mínum í stjórnarandstöðunni sem allir leggjast gegn því. Stjórnarandstaðan hefur mismunandi áherslur en hún er einhuga í því að þetta sé ekki leiðin til að efla fjölmiðlamarkaðinn. Það er alveg klárt.

Það er mjög athyglisvert að niðurstaðan af þessu þriggja ára ferli af hálfu Sjálfstæðisflokksins — Framsóknarflokkurinn hefur einhvern veginn tölt þetta með — sé sú að Sjálfstæðisflokkurinn vilji skapa forréttindafyrirtæki með duglegan heimanmund áður en hann leggst í baráttu við einkafyrirtæki á markaðnum og gera ríkisstofnun þannig úr garði að hún hafi kraft og styrk einkafyrirtækis en njóti verndar eins og ríkisstofnun.

Þetta er mjög athyglisverð hugmyndafræði og ekki síst að þetta skuli vera arfleifðin eftir þriggja ára baráttu. (BÁ: … segja að við séum að svelta RÚV.) Hv. þm. Birgir Ármannsson er hér kominn í salinn og fagna ég honum alveg sérstaklega. Hann er einn þeirra sem hafa fengið hafa þann heiðurstitil í hugum sumra, þó kannski ekki allra, að vera í sölunefnd ríkiseigna hér á þingi ásamt hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni og Pétri Blöndal. Er þetta ekki sagt í neinum niðrandi tón. Ég veit að þeir hafa talað fyrir því að minnka stærð ríkisins, ef svo má að orði komast.

Hér er verið að fara allt annan veg og hv. þingmaður kallaði einmitt fram í að þeir hefðu oft verið sakaðir um að svelta RÚV. En með þessu á að reyna að straumlínulaga fyrirtækið og minnka kostnað eins og nokkur er kostur. Það er alveg klárt, það er hugmyndafræðin á bak við þetta. (Gripið fram í: … verra eða betra?) Það á tíminn náttúrlega eftir að leiða í ljós en ég gæti vel ímyndað mér að mér þætti óþægilegt sjálfum að reka fyrirtæki á einkamarkaði og þurfa að kljást við ríkisfyrirtæki með forréttindi sem á að gera úr garði eins og hér liggur fyrir hugmynd um að verði.