133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:29]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður varpaði fram fjölmörgum spurningum til mín í ræðu sinni. Ég ætla að gera mitt besta til að svara þeim öllum. Ég þarf örugglega bæði andsvörin til þess.

Þingmaðurinn fjallaði um málið af ákveðnu lítillæti, kallaði sig hluta af brjóstvörn þingsins og lýðræðisins en tók það sérstaklega fram að hann hefði ekki áður tekið þátt í umræðunni um málið. Ræðan bar þess dálítil merki að hv. þingmaður hefur ekki kynnt sér þessi mál mjög verulega þau þrjú ár sem þau hafa verið hér til umræðu.

Hann byrjaði á því að spyrja mig út í það hvers vegna ákvæði 2. mgr. 1. gr. hefði komið inn í frumvarpið, þess efnis að Ríkisútvarpinu væri óheimilt að eiga hlut í öðru fyrirtæki sem gefur út dagblað og rekur útvarpsstöð.

Tildrög þess að þetta ákvæði var tekið upp í frumvarpið má rekja til umfjöllunar menntamálanefndar milli 2. og 3. umr. um Ríkisútvarpið hf. Við þá meðferð komu fram ábendingar frá Sigurði Líndal, prófessor emeritus, um að það kynni að brjóta í bága við reglur stjórnarskrárinnar að hafa þetta ákvæði ekki inni úr því að ákvæði þessa efnis er í fjölmiðlafrumvarpi hæstv. menntamálaráðherra. Því þótti mikilvægt til að gæta samræmis að taka ákvæðið einnig inn í þetta frumvarp.

Það var spurt hvað fellur undir 4. gr. frumvarpsins um aðra starfsemi. Hv. þingmaður nefndi hljóðsnældur, hringitóna og DVD-diska. Það má til sanns vegar færa. Ég vil bæta því við fyrir hv. þingmann að undir þetta ákvæði falla einnig tekjur (Forseti hringir.) vegna t.d. leigu á tækjum og búnaði sem Ríkisútvarpið hefur yfir að (Forseti hringir.) ráða og getur aflað sér tekna vegna.

Ég mun, hæstv. forseti, reyna að svara hinum spurningunum í seinna andsvari mínu.