133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:31]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður brást ekki vonum mínum og leyfði sér þann munað að fella einhvers konar ritdóm eða palladóm um þá ræðu sem hér var flutt og ég lenti augljóslega í því eins og fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar að fá lágmarkseinkunn. Hvort við höfum staðist prófið skal ég ekki segja en þetta er mjög athyglisvert. Hann veit kannski ekki sjálfur hvort þetta er liður eða þáttur í þeim herlögum eða herkví sem þingið er í út af þessu máli, að menn skuli koma hingað upp og fella slíka palladóma.

Ég spurði hv. þingmann reyndar að því hvort Ríkisútvarpinu væri heimilt að kaupa í öðrum félögum en þeim sem er neikvæð skilgreining um í 1. gr. Sú var spurningin og það kom ekki svar við henni. Ég spurði hv. þingmann líka hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að Ríkisútvarpið ohf. efndi eða stofnaði til annarrar sjónvarpsrásar, til að mynda sjónvarpsrásar með dægurmál, sérstakrar íþróttarásar. Er eitthvað því til fyrirstöðu að Ríkisútvarpið fari í þannig samkeppni undir formerkjum almannaþjónustu? Er eitthvað því til fyrirstöðu að Ríkisútvarpið bregði sér í slíka samkeppni í þeim forréttindabúningi sem verið er að reyna að setja þetta einkavædda ríkisfyrirtæki í?