133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:40]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hann er að sumu leyti aðdáunarverður sá harði og einbeitti vilji hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að reyna að tala til þingmanna Samfylkingarinnar á þann veg að þeir tali einn veg og annan eftir því hver er í ræðustól hverju sinni. Það hefur verið alger einhugur hjá þingmönnum Samfylkingarinnar í þessu máli. Ég geri mér grein fyrir því að tilmæli hafa væntanlega komið úr einhverri deild innan flokksins að á þennan hátt skuli talað til þingmanna en mér þykir engin reisn á því að apa slíka innihaldslausu frasa eftir.

Kjarninn í máli mínu var ekki sá að það væri einhver ofrausn af þeim tekjum sem Ríkisútvarpið hefði fengið heldur að úr því að verið er að breyta ríkisstofnun, eða sú hugmynd að breyta ríkisstofnun í fyrirtæki sem á að straumlínulaga, sem á að skera burt fituna af og draga úr kostnaði, (Gripið fram í.) nei, að það skuli fara inn á þennan markað á einhverju forréttindastigi. Þetta var kjarninn í máli mínu og ég tel algerlega fráleitt að ríkisvaldið sé að standa í svona samkeppni með heimanmund upp á þessa fjárhæð, undanþegnum samkeppnislögum og undir þessum formerkjum að hjóla í þau fyrirtæki sem fyrir eru á markaði.

Þetta er kjarninn í því sem ég var að gagnrýna en á hinn bóginn er langur vegur frá því að ég teldi að þetta væri einhver ofrausn með tekjur, of mikið eða of lítið. Það er ekki það sem var að í þessu. Ég er bara að segja að sú hugmyndafræði að breyta Ríkisútvarpinu sem nú er, fara með það þannig inn á markað eða þannig að það er verið að búa til ríkisfyrirtæki með forréttindi tel ég ekki ganga upp.