133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:43]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram að með nokkurs konar aðstoð eða samhjálp eða samvinnu ESA, Samkeppniseftirlits og Ríkisendurskoðunar þá muni menn reyna að átta sig á því hvert er raunverulegt innihald í hugmyndum manna um hvað sé almannaþjónusta og hvað ekki. Þar verði einhvers konar skilgreining. Vandinn er hins vegar sá þegar menn skoða það, að þessi skilgreining er svo víðfeðm að það er nánast ekkert sem ekki fellur þarna undir, eins og ég fór yfir í ræðu minni og dró það saman kannski í pínulítilli kerskni en þó, ég talaði um að vídeóleiga, plötubúð og hringitónar yrðu klárlega fyrir utan þessa almannaþjónustu.

Þetta er í raun og veru það sem ég hef verið að segja og málið er það að þjónustusamningurinn bætir svo litlu við. Hann þrengir þessa skilgreiningu svo lítið. Hann er svo lítil viðbót við það að við áttum okkur á því hvar fyrirtækið Ríkisútvarpið ohf. fær að starfa í óheftri samkeppni utan laga og réttar, utan samkeppnisreglna. Þarna m.a. liggur ótti minn í þessu tiltekna máli og mótar það að það vekur mikla undrun hjá mér að stjórnmálaflokkur sem vill kenna sig við frelsi einstaklings, sem vill kenna sig við valfrelsi og athafnafrelsi stendur í raun og veru nakinn. Ég hef ekki talað fyrir því að hafa þetta sem sameignarfélag í eigu eins eða hlutafélag eða opinbert hlutafélag og ég veit svo sem ekki hvað, það vantar bara að á næsta ári — sem verður kannski ólíklegt þar sem þá verður breytt ríkisstjórn — þá verði það samvinnufélag. (Forseti hringir.) Það er kannski það eina form sem vantar í þetta, virðulegi forseti, en þetta er kjarninn því þjónustusamningurinn þrengir ekki skilgreininguna.