133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:40]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Nú er þannig ástatt að klukkuna vantar átján mínútur í ellefu. Það þætti ekki margt á skemmtistöðunum fyrir utan hjá okkur, það er fimmtudagskvöld. Þetta er fjórða kvöldið sem við, sem með einhverjum hætti erum bundin við þessa umræðu alla, erum hér að stússast. Ég inni forseta eftir því hvað hann hyggst fyrir með kvöldið, hvort hér á að vera að til klukkan tólf eða hvort á að vera að lengur. Í gær lauk fundi kl. hálftvö.

Eru einhverjar ráðagerðir af hálfu forseta hvernig þetta verður svo ég geti hringt í eiginkonu mína og sagt henni hvort ég kem heim í kvöld eða hvort það verður um miðja nótt eða hvernig það verður?

Tekin var upp fjölskylduvæn stefna einhvern tíma í tíð hins kjörna forseta. Ég hef ekki séð mikið af henni, ég er nú svo sem ekki að tala um mikið stærri fjölskyldu en þetta, og hef þó fjölskylduáhyggjur. Hvað ég á að segja konunni minni í símann á eftir, forseti sæll?