133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:54]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er svolítið hissa. Þegar menn stýra fundi er réttast að tala hreint út um hlutina og segja fundarmönnum hversu lengi fundur á að standa. Maður hefur vanist því að fundarstjórar reyni að hafa skýrar leikreglur hvað það varðar, sérstaklega þegar vitað er að fundarmenn sem ætla að taka þátt í umræðunni eiga að vera staddir annars staðar snemma daginn eftir.

Hér virðist allt annað ganga þegar Framsóknarflokkurinn á í hlut og er að ræða mál sem er andsnúið almennum flokksmönnum. Þá á að keyra þetta í gegn. Það er ekki einu sinni hægt að segja þeim sem koma að umræðunni hvað hún á að standa lengi.

Ég er alveg gáttaður á þessu. Þetta er ekki hæstv. forseta til sóma. Við eigum að vera mættir á fund kl. 8 í fyrramálið og hæstv. forseti getur ekki greint frá því hvað hann ætlar að láta þennan fund standa lengi. Ég er viss um að þeir sem fylgjast með þessu eru furðu lostnir yfir þessu leyndarmáli hæstv. forseti um hvað hann ætlar að hafa fundinn lengi.

Heldur hæstv. forseti að þetta greiði fyrir málinu? Hvílíkur barnaskapur ef svo er. Ég sé ekki að það geti greitt fyrir þingstörfum. Ég furða mig á þessu. Mér finnst þetta stórundarlegt.

Ég skora enn og aftur á hæstv. forseta að greina okkur frá því hvort við eigum að vera til kl. 1, 2, 3, 4, 5 eða jafnvel allar götur þangað til fundur hefst um Byrgismál Framsóknarflokksins. Það er athyglisvert ef það er markmiðið hjá fundarstjóra hér, hæstv. forseta, að halda þingmönnum hér við efnið alveg fram á þann tíma sem á að fara að ræða málefni Byrgisins og síðan tekur við umræða utan dagskrár um það mál.

Það mál þarf virkilega athygli við. Það hefur komið í ljós að formaður Framsóknarflokksins hefur leynt skýrslu fyrir fjárlaganefnd. Sá sem gerði skýrsluna, aðstoðarmaður hans, eða réttara sagt þáverandi félagsmálaráðherra, gerðist síðan formaður fjárlaganefndar og gerði ekkert með þessa skýrslu (Forseti hringir.) sem hann bjó til sjálfur. Maður er alveg gáttaður á þessu. Ég er líka gáttaður á hæstv. forseta.

(Forseti (JónK): Ég vil minna hv. þingmann á að tala um fundarstjórn forseta.)

Ég er að því, herra forseti.

Mér finnst svolítið sérstakt að þegar svona mikilvæg mál eru á dagskrá þingsins daginn eftir (Forseti hringir.) ætli forseti að halda hér (Forseti hringir.) mönnum við efnið inn í nóttina. (Forseti hringir.)