133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég minni á að þegar við gerðum hlé á þingfundi í gærkvöldi var gerð athugasemd við það að formaður Framsóknarflokksins var ekki á svæðinu þótt ítrekað væri eftir því leitað. Sú krafa eða ósk lá í loftinu ef svo má heita að nærveru hans væri óskað í dag við umræðuna. Ég er ekki að fara fram á það að hann komi núna en vek athygli á því að engrar viðleitni hefur orðið vart af hans hálfu að svara þeim kröfum og óskum sem fram komu. Afstaða Framsóknarflokksins til Ríkisútvarpsins og svik flokksins við hugsjónir sínar, heitstrengingar og samþykktir á flokksþingum hafa verið talsvert til umræðu hér í þinginu og það hefði verið eðlilegt að formaður flokksins væri hér til að svara fyrir þau mál. Það má minna á að eitt af því sem fundið hefur verið að þessu lagafrumvarpi um Ríkisútvarpið snýr að samkeppnismálum og samkeppnisrétti en sá málaflokkur heyrir undir hæstv. viðskiptaráðherra sem er einn og sami maðurinn, formaður Framsóknarflokksins, hæstv. ráðherra Jón Sigurðsson.

Ég vil aðeins vekja athygli á þessu við þetta tækifæri jafnframt því sem ég tek undir með formanni þingflokks Samfylkingarinnar, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að mér finnst eðlilegt að hlé verði gert á þessum fundi og okkur, formönnum þingflokka, gefið ráðrúm til að funda með forseta þingsins þannig að við getum borið saman bækur okkar um framhaldið. Ég tek undir þá kröfu sem hér hefur verið borin fram um að hlé verði gert á fundinum og við berum saman bækur okkar um framhaldið.

Ég minni á að fram undan er dagur þar sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð efnir til flokksráðsfundar sem hefst síðdegis og við munum ekki sætta okkur við að þingfundur standi lengi fram eftir degi. Samkvæmt hefð og venju er það virt hér í þinginu þegar stjórnmálaflokkar efna til slíkra funda. Ég minni á að sá fundur stendur einnig á laugardag en hæstv. forseti hafði í dag einhverjar yfirlýsingar uppi um þinghaldið á þessum tíma. Við viljum fá umræðu um það og niðurstöðu.