133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:21]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil bara minna á að hér var næturfundur í gær. Ég var í ræðustól til klukkan langt gengin í eitt í nótt sem leið þannig að hér stóð næturfundur. Samkvæmt öllum skilgreiningum er það næturfundur ef fundur fer fram yfir miðnætti. Miðað við það sem hér hefur fram komið, að ekki hefur verið talað um að hér yrðu næturfundir heldur kvöldfundir alla þessa viku, er þegar búið að rjúfa þá hefð með vissum hætti. Við gerðum ekki athugasemd við það í sjálfu sér, það varð ekki að umræðuefni í gær enda tókst samkomulag um að hætta um hálftvöleytið en það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að það væri enn frekara rof á öllum hefðum ef hér yrði fundað fram yfir miðnættið í nótt, þá væru hér næturfundir tvö kvöld í röð eða tvær nætur í röð.

Ég minni bara virðulegan forseta á það, ég veit að hann þekkir til aðstæðna því að hann var sjálfur á forsetastóli til skiptis við annan mann hér síðdegis í gær, gærkvöldi og inn í nóttina, bara að forseti hafi þetta í huga þegar hann talar um að meta hlutina um miðnætti. Ég tek því auðvitað þannig að forseti geri sér grein fyrir því að um miðnætti eða upp úr því hljóti fundum að ljúka í þessari lotu í ljósi þessa sem liggur fyrir, að hér var í raun og veru næturfundur í gær. Þar við bætist að nú hafa fleiri en ein þingnefnd boðað fund í fyrramálið. Það er utandagskrárumræða í upphafi fundar á morgun og allar aðstæður þannig að það ræðir ekkert um það að hér verði fundað langt inn í nóttina. Langbest væri að mínu mati að forseti kvæði upp úr um það að fundum lyki um eða upp úr miðnættinu og a.m.k. yrðu ekki fleiri menn teknir á mælendaskrá en sá sem hæfi mál sitt á eftir og gerði þá annaðhvort hlé á máli sínu eða lyki því í kringum miðnættið.