133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[10:33]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nú er nýr dagur í lífi þings og þjóðar og það er föstudagur. Nú væri fróðlegt að vita, af því að forseti er áhugamaður annars vegar um fagurt mannlíf og sérstaklega um samvistir Íslendinga almennt og þingmanna sérstaklega með fjölskyldu sinni og hins vegar um réttlátt, skynsamlegt og skilvirkt þinghald, hvernig á að haga þessum degi á þinginu. Við þekkjum hvernig þetta hefur verið undanfarna daga, það hefur verið haldið þing allan daginn og nokkuð fram á nótt. Í gær var t.d. lokið störfum á þinginu kl. 2.06 og þingforsetar sem voru hér í gærkvöldi fengust ekki til að skýra það neitt um kvöldið hvenær þeim ætti að ljúka. Raunar má minnast á það, forseti, að í gærkvöldi var einmitt beðið um að viðstaddir yrðu m.a. forseti þingsins, sá sem kjörinn var, og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar og framsögumaður meiri hluta menntamálanefndar. Sagt var að boð hefðu verið flutt til þessara manna og fleiri en þeir komu ekki á svæðið og fréttist ekkert af þeim fyrr en í Fréttablaðinu í morgun en þá kom í ljós að þetta fólk hafði verið í sérstakri veislu sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt í gærkvöldi á þingtíma. (Gripið fram í.) Ég vil að forseti þingsins komi þeim skilaboðum til formanns Sjálfstæðisflokksins eða yfirveisluhaldara í Sjálfstæðisflokknum að veislur með þingmönnum á þingtíma séu ekki æskilegar og vonandi ætlar Sjálfstæðisflokkurinn ekki að halda fleiri veislur í dag eða í kvöld ef þing á að haldast á þeim tíma.