133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[10:40]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa mikilli undrun minni á því að hæstv. viðskipta- og iðnaðarráðherra skuli lýsa því sem hér fer fram sem einhverjum gamanmálum, að þingmenn séu að skemmta sér. Gerir ríkisstjórnin sér ekki grein fyrir því hversu alvarlegt ástandið er í þinginu? Gerir hún sér ekki grein fyrir því að hér hefur staðið yfir mjög löng og hörð umræða um frumvarpið um framtíð Ríkisútvarpsins? Gerir formaður Framsóknarflokksins sér ekki grein fyrir því hversu alvarleg staða er komin upp í þessu máli? Það er með hreinum ólíkindum, virðulegi forseti, að heyra þetta úr munni ráðherra þegar staðan er eins og hún er orðin.

Mér finnst óskiljanlegt að ríkisstjórnarmeirihlutinn skuli ekki geta fallist á höfðinglegt sáttaboð okkar í stjórnarandstöðunni um að gildistöku þessara laga verði frestað fram yfir kosningar þannig að þjóðin sjálf geti fengið að taka afstöðu til málsins í kosningum í vor. Við erum að tala um mjög mikilvægt mál, þetta er ekkert gamanmál. Við erum að tala um framtíð Ríkisútvarpsins, útvarps þjóðarinnar, og mér finnst að menn ættu ekki að hafa það í flimtingum.

Hvernig væri að fallast á þetta sáttaboð? Þingið gæti þá farið að vinna að öðrum þjóðþrifamálum, mikilvægum frumvörpum sem bíða afgreiðslu. Það má til að mynda nefna fjölmiðlafrumvarpið sem hefur verið mikið hjartans mál fyrir hæstv. menntamálaráðherra. Ég hef sjálfur tekið þátt í þeirri vinnu sem liggur að baki því frumvarpi. Ég hefði talið eðlilegast og betri svip á því að ríkisútvarpsfrumvarpið og fjölmiðlafrumvarpið hefðu komið saman inn í þingið. Ég hef sagt það allar götur frá því að þessi mál komu fyrst upp. Það hefði verið betri svipur á því. Ríkisstjórnin hefur kosið að fara aðra leið. Hvernig væri að fallast á sáttatilboð okkar í stjórnarandstöðunni þannig að við gætum haldið áfram störfum okkar á Alþingi og gert það svo fullur sómi sé að? Þetta er ekkert gamanmál, þetta er grafalvarlegt mál.