133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[10:42]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég get fullvissað formann Framsóknarflokksins um það að þó að ég sé að eðlisfari glaðsinna maður þá er mér ekki skemmt yfir þeim óförum Framsóknarflokksins sem við horfum upp á dag hvern. Ég hef satt að segja aldrei séð nokkurn flokk fara jafnrækilega á nefið og Framsóknarflokkinn í þessari umræðu. Sá flokkur hefur að baki sér samþykkta stefnu sem hann er að brjóta dag hvern. (Gripið fram í: Hver er stefna Samfylkingarinnar?) Flokksþing Framsóknarflokksins hefur samþykkt afdráttarlaust að það eigi ekki að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. (Gripið fram í: Hver er stefna Samfylkingarinnar?) Við skulum ekki gera okkur rellu af því, frú forseti, en hins vegar er það skylda stjórnmálamanna sem leiða stjórnmálahreyfingar að greiða fyrir þingstörfum og reyna að finna lausn á erfiðum málum. Það hefur komið fram tilboð af hálfu stjórnarandstöðunnar sem gerir mönnum kleift að samþykkja þessi lög með tiltölulega skjótum hætti en það er hins vegar þrákelkni einstakra stjórnmálamanna, sem er skiljanleg miðað við forsögu málsins, sem kemur í veg fyrir það. Á slíkum stundum er þess vegna nauðsynlegt að menn eins og t.d. formaður hins stjórnarflokksins freisti þess að bera klæði á vopnin. En þá þýðir ekkert fyrir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að koma hingað og gera bara grín að málinu. Ef staðan er orðin þannig að formaður Framsóknarflokksins gerir bara grín að því að Sjálfstæðisflokkurinn sé hér með mál í gangi sem er að tæta spjarir trúverðugleikans hverja af annarri af Framsóknarflokknum þá skilur maður kannski af hverju sá flokkur liggur eins og hann gerir í dag í feni fylgisleysis.

Frú forseti. Ég skora á formann Framsóknarflokksins að koma hingað upp og skýra sinnaskipti síns flokks.