133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[10:46]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það sem hæstv. iðnaðarráðherra, formaður Framsóknarflokksins, sagði áðan er eiginlega staðfesting á því sem hefur í raun og veru gilt. Framsóknarflokkurinn hefur selt íhaldinu próventuna sína. Ekki bara í útvarpsmálinu, því þeir voru líka á móti því að selja Símann. Þeir seldu próventuna í því máli. Þeir voru herleiddir í Íraksmálinu og núna í útvarpinu.

Síðast komu fréttir af því, og það er alveg sérstök ástæða til að taka eftir því, að þegar sú nefnd sem er að fara að skila af sér endurskoðun stjórnarskrárinnar skilar af sér, þá birtist ekki ein aðalrósin úr hnappagati Framsóknarflokksins við síðustu kosningar og söluvara á markaðstorgi atkvæðanna um að setja auðlindina í þjóðareign og setja ákvæði um það í stjórnarskrá sem var sátt í flokknum, sem hver leiddi? Einmitt núverandi formaður flokksins sem situr svo uppi með það, þó að þetta hafi verið sett inn í stjórnarsáttmála, að það birtist ekki sem niðurstaða nefndarinnar sem var að fjalla um stjórnarskrána.

Niðurlæging Framsóknarflokksins er þvílík og alger að ég held að orð hæstv. iðnaðarráðherra um að íhaldið hafi talsmenn í málaflokkunum fyrir hönd flokksins segi allt um það hvernig er hugsað á þeim bæ.