133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[11:03]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða um fundarstjórn forseta og vil byrja á því að lýsa yfir megnri óánægju minni með að mér skuli úthlutaður ræðutími á næturnar. Mér var ætlaður ræðutími í gær klukkan hálftólf.

Frú forseti. Ég er að ræða um fundarstjórn forseta og var að mótmæla því að mér sé ætlaður ræðutími á næturnar. Ég er mjög ósáttur við það og sérstaklega í ljósi þess að þegar ég kaus núverandi hæstv. forseta til þess starfa sem hún gegnir var sérstaklega rætt um að þetta ætti að vera fjölskylduvænn vinnutími. Ég lenti í því í gær að í stað þess að vera heima í rólegheitunum að svæfa son minn var ég sendur hingað niður í þing til að svæfa hálfa þjóðina. (Gripið fram í.)

Ef stjórnarliðið hefði gefið sér tíma til að hlusta á umræðuna í gær hefði það áttað sig á því að hér var bent á mjög mikinn galla í frumvarpinu. Ég hef áður bent á annan galla. Sá galli sem ég hef verið að benda á er að verði þetta frumvarp samþykkt klippir það beinlínis á lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Var það ætlunin, er það vísvitandi gert? Ég held ekki og það finnst mér næg ástæða til að taka frumvarpið til baka inn til nefndar.

Hitt er kannski öllu verra, frú forseti, (Gripið fram í.) sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti hér á í gær, að verði frumvarpið samþykkt eins og það er núna óbreytt munu þeir sem einungis hafa fjármagnstekjur ekki borga nefskatt eða afnotagjöld af Ríkisútvarpinu. (Forseti hringir.) Er það vísvitandi gert?

(Forseti (SP): Forseti bendir hv. þingmanni á það að hér er ekki verið að ræða efni frumvarpsins um Ríkisútvarpið, heldur um fundarstjórn forseta. Forseti getur enn fremur upplýst um það að forseti hefur upplýsingar um að hv. þingmaður hefur talað í hartnær níu klukkustundir í þessu máli þannig að það er kannski skiljanlegt að hv. þingmaður þurfi að hafa sinn tíma til að ræða málefni Ríkisútvarpsins, hvort sem er að degi eða kvöldi.)

Frú forseti. Það er ekki mér að kenna að mér sé ætlað að ræða þetta mál hér á næturnar, það er ekki mín ákvörðun, alls ekki. Ég er hér að benda á tvo galla í frumvarpinu, frú forseti, það er einfaldlega það sem ég er að gera. En ef þetta eru ekki gallar er þetta vísvitandi gert og ég er ekki viss um að allir stjórnarliðar hafi áttað sig á því að það sé vísvitandi að þeir sem einungis greiða fjármagnstekjuskatt borgi ekki afnotagjöld, þeir borgi ekki nefskatt. (Gripið fram í.) Er það ekki galli á frumvarpinu, (Forseti hringir.) hæstv. menntamálaráðherra, er þetta með vilja gert?

(Forseti (SP): Efni frumvarpsins er ekki til umræðu hér undir þessum dagskrárlið, forseti hefur bent hv. þingmanni á það. (Gripið fram í: Búinn með ræðuna.) Honum ber að halda sig við efnið. )

Frú forseti. Því er nú þannig til hagað, eins og ég hef bent á, að mér er ætlað að ræða málið hér á næturnar. Þá eru stjórnarliðarnir einfaldlega ekki mættir til að hlusta á ræður mínar. (Menntmrh.: Það er ekki rétt, ég var hér í nótt að hlusta á þig.) Þú komst í fimm mínútur, þegar hana vantaði fimm mínútur í tvö og þá var ræðunni ekki lokið. (Menntmrh.: Ég hlustaði á þig.) Þú hlustaðir ekki á mig.

(Forseti (SP): Samkvæmt þingsköpum er ekki ætlast til þess að ræðumenn tali við þingmenn úti í sal. Þeim ber að beina máli sínu til forseta.)